Fréttasafn11. des. 2019 Almennar fréttir Efnahagsmál Starfsumhverfi

Óbreyttir stýrivextir vonbrigði

Peningastefnunefndin ákvað að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum að þessu sinni. Samtök iðnaðarins telja þá ákvörðun mikil vonbrigði. Verðbólga og verðbólguvæntingar við markmið gefur peningastefnunni svigrúm til þess að lækka stýrivexti frekar og milda þannig efnahagssamdráttinn. Niðursveiflan í efnahagslífinu er vaxandi og horfur um hagvöxt á næsta ári hafa verið að versna. Mikilvægt er að brugðist sé við þeirri þróun með framsýnum hætti í peningastjórnun. Vaxtaákvörðunin nú snýst um hagvaxtarhorfur á næsta ári en líklegt er að verðbólga sé á leiðinni undir 2,5% verðbólgumarkmiði bankans á næstunni.

Framboð lánsfjármagns og vaxtakjör eru súrefni efnahagslífsins. Mjög mikilvægt er við þessar aðstæður að örva hagkerfið til vaxtar með því að nægt lánsframboð á vaxtakjörum sem eru til þess fallin að hvetja til nýrra fjárfestinga en talsverður samdráttur hefur verið í fjárfestingu atvinnuveganna undanfarið. Með auknum fjárfestingum má byggja undir aukna framleiðslugetu hagkerfisins og knýja þannig hagvöxt, skapa störf og ná niður atvinnuleysi sem hefur vaxið umtalsvert undanfarið.

Eftir að hafa brugðist við niðursveiflunni í efnahagslífinu með lækkun stýrivaxta bankans um 1,5 prósentur frá því í maí síðastliðinn hefur nefndin nú ákveðið að staldra við og sjá til. Hik er hins vegar ekki rétta hagstjórnameðalið við þessar aðstæður. Við þurfum fumlaus vinnubrögð og áræðni í hagstjórn eigi að nást það markmið að milda yfirstandandi efnahagsniðursveiflu og neikvæð áhrif hennar á íslensk fyrirtæki og heimili.       

Styrivextir-sedlabanka-desember-2019

Frettabladid.is, 11. desember 2019.

Viðskiptablaðið, 11. desember 2019.

mbl.is, 11. desember 2019.