Öflugir innviðir hryggjarstykkið í nútíma þjóðfélagi
Öflugir og traustir innviðir eru hryggjarstykkið í nútíma þjóðfélagi og algjör forsenda fyrir samkeppnishæfu atvinnulífi og blómlegu lífi landsmanna, landið um kring. Þetta sagði Árni Sigurjónsson, formaður SI, meðal annars í setningarávarpi á Útboðsþingi SI. Hann sagði að þriðja útgáfa Innviðaskýrslu Samtaka iðnaðarins og Félags ráðgjafarverkfræðinga, sem var kynnt fyrir tæpu ári síðan, fjalli um ástand og framtíðarhorfur innviða á Íslandi. Hann sagði skýrsluna draga upp þá skýru og hryggilegu mynd að fjárfesting í innviðum hér á landi sé ónóg sem hafi valdið því að ástand innviðanna okkar sé víða óviðunandi og uppsöfnuð fjárfestingarþörf sé talsverð. Raunar hafi úttektin leitt í ljós að þrátt fyrir fögur fyrirheit og yfirlýsta stefnu stjórnvalda hafi ástand innviða heilt yfir á liðnu ári ekki orðið betra en það var þegar fyrsta skýrslan kom út árið 2017. Það sé því ærið tilefni til að skoða hvað betur megi fara svo okkur verði unnt að grynnka á innviðaskuldinni.
Skref í rétta átt ef þau verða stigin af festu, raunsæi og ábyrgð
Í ávarpi sínu sagði Árni að ferli framkvæmda og útboða vera flókið og fjárveitingar hins opinbera breytist ár frá ári, þvert á áætlanir. „Þetta vitum við, þessu má breyta og þessu þarf að breyta. Það var því gleðilegt að heyra yfirlýsingar forsætisráðherra síðastliðið haust þegar tilkynnt var um að hefja ætti vinnu við gerð atvinnustefnu fyrir Ísland til næstu tíu ára.“ Hann sagði að við það tilefni, og raunar á fleiri fundum eftir það, tilkynnti hún að á ný væri runninn upp tími stórframkvæmda. Nú sé búið að kynna nýja samgönguáætlun og senn styttist í kynningu á umræddri atvinnustefnu, sem Samtök iðnaðarins hafi lengi kallað eftir. Þá liggi fyrir nýsamþykkt fjárlög og boðað hafi verið stofnun svokallaðs innviðafélags af hálfu hins opinbera. Allt séu þetta skref í rétta átt, ef þau verði stigin af festu, raunsæi og ábyrgð.
Fjárfesting í innviðum tryggir hagvöxt, nýsköpun og bætt lífskjör
Þá kom fram í máli Árna að Samtök iðnaðarins líti svo á að fjárfesting í innviðum sé ein mikilvægasta fjárfesting sem stjórnvöld geta ráðist í til að tryggja hagvöxt, nýsköpun og bætt lífskjör til framtíðar. Fjárfesting í innviðum sé nefnilega ekki útgjaldaliður heldur fjárfesting í framtíðarsamkeppnishæfni Íslands, aukinni framleiðni og vexti fyrir allt samfélagið. „Við hlökkum til að vinna með stjórnvöldum í hinni yfirlýstu vegferð stórframkvæmda og aukinna innviðafjárfestinga, næstu misseri og ár, og hvetjum þau til dáða í þeim efnum. Hér þarf sannarlega að hafa auga á boltanum og ekki missa dampinn þó inn á milli komi slæmir kaflar. Þetta er langhlaup, ekki sprettur.“
Hátt raunvaxtastig tefur nauðsynlega uppbyggingu í innviðum
Árni vék einnig að fjármögnunarkostnaði. „Því eins og iðnrekendur og aðrir þeir sem reka atvinnustarfsemi á Íslandi vita mætavel þá tefur hátt raunvaxtastig nauðsynlega uppbyggingu og fjárfestingar í innviðum, tækjum og tólum.“ Hann sagði stjórnvöld verða í aðgerðum sínum að stuðla að og setja í algjöran forgang lækkun verðbólgu og vaxta. „Þær skatta- og gjaldahækkanir sem við heyrum af nánast daglega um þessar mundir hjálpa ekki í þeirri baráttu, þvert á móti.“
Myndir/BIG

Árni Sigurjónsson, formaður SI.

