Fréttasafn



21. jan. 2026 Almennar fréttir Mannvirki

Fulltrúar opinberra aðila kynntu útboð ársins á fjölmennu þingi

Fjölmennt var á Útboðsþingi SI sem var haldið í gær í samstarfi við Mannvirki - félag verktaka og Samtök innviðaverktaka í Háteig á Grand Hótel Reykjavík. Á þinginu þar sem hátt í 200 manns voru samankomin voru kynnt fyrirhuguð útboð ársins á verklegum framkvæmdum opinberra aðila. Í nýrri greiningu SI sem kynnt var á þinginu kemur fram að áætluð heildarfjárhæð í fyrirhuguðum verklegum útboðum 11 opinberrra verkkaupa nemur 221 milljarði króna sem er 53% aukning frá þeim útboðum sem raungerðust árið 2025.

Fundarstjórn var í höndum Þorgils Helgasonar, viðskiptastjóra á mannvirkjasviði SI. Árni Sigurjónsson, formaður SI, setti þingið. Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, flutti ávarp. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, kynnti samantekt á útboðum. Fulltrúar eftirtaldra opinberra aðila kynntu síðan fyrirhuguð útboð ársins: Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri Reykjavíkur, Ásbjörg Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri framkvæmda hjá Landsvirkjun, Valur Indriði Örnólfsson, framkvæmdastjóri Framkvæmda, og Dóra Lind Pálmarsdóttir, framkvæmdastjóri hönnunar og áætlana hjá Framkvæmdasýslunni - Ríkiseignum, Páll Björgvin Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Unnur Helga Kristjánsdóttir, forstöðumaður verkefnastjórnunar framkvæmda hjá Landsneti, Jón Heiðar Gestsson, forstöðumaður framkvæmda hjá Vegagerðinni, Ólafur Birgisson, sviðsstjóri framkvæmdasviðs NLSH, Sigurður Snædal Júlíusson, verkefnastjóri innkaupa hjá Betri samgöngum, Kristín Soffía Jónsdóttir, framkvæmdastjóri þróunar og framtíðar hjá Rarik, Ingimundur Jónsson, deildarstjóri verkfræðideildar hjá ISAVIA og Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Veitna. 

Hér er hægt að nálgast glærur þingsins.

 

 

SI-Idnthing26_loka