Fréttasafn4. des. 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Óformleg stefna í Danmörku að hampa því sem er danskt

Í Morgunblaðinu í dag ræðir Ásgeir Ingvarsson, blaðamaður, við Jens Holst-Nielsen, sem er meðal fyrirlesara á Framleiðsluþingi SI sem fram fer í Hörpu á miðvikudaginn en hann stýrir alþjóðamarkaðsmálum hjá Dansk Industri og ætlar að fjalla um ímynd danskrar framleiðslu undir yfirskriftinni „Made in Denmark“.

Þegar landið er tákn um gæði er fyrirsögn viðtalsins og skrifar Ásgeir að um allan heim þyki það gæðastimpill ef vara kemur frá Danmörku hvort sem um er að ræða matvæli, tískufatnað, leikföng, húsgögn, hljómtæki eða rafmagnsvindmyllur þá reikna kaupendur með að það sem er danskt sé fyrsta flokks. Hann veltir því fyrir sér hvort hægt væri að gera það sama fyrir íslenskar vörur og hvort við séum jafnvel langt komin með að láta heimsbyggðina tengja íslenska framleiðslu við alls kyns eftirsóknarverða eiginleika. 

Ákveðin gildi sem fylgja dönskum vörum

Í viðtalinu segir Jens að Danmörk sé land þar sem framleiðslukostnaður sé hár og því mikilvægt að gott verð fáist fyrir danskar vörur. „Dönskum framleiðendum hefur tekist að staðsetja sig á dýrari enda markaðarins og skýrist það ekki síst af því að það eru ákveðin gildi sem fylgja vörunum þeirra. Hvað snertir neytendavörur þá spilar t.d. ímynd Danmerkur sem eins konar ævintýraland oft inn í þá hugmynd sem kaupandinn hefur um vöruna.“ 

Jens segir að hnitmiðað markaðsstarf geti virkað en fara þurfi réttu leiðina. „Fyrir áratug var reynt að markaðssetja Danmörku sem „skapandi þjóð“ en það skilaði ekki miklum árangri enda er svo sem hægt að segja um allar þjóðir að þær séu skapandi. Norðmennirnir hafa náð betri árangri með sinni herferð, um að landið sé „knúið áfram af náttúrunni“.“ Hann segir að ef á að ráðast í markaðsstarf af þessu tagi sé vissara að leggja áherslu á eitthvað sem engar eða fáar aðrar þjóðir geta státað af. 

Hann segir jafnframt að það virðist óformleg stefna bæði fyrirtækja og stofnana að hampa því sem er danskt. „Það á bæði við í höfuðstöðvum DI, á veitingastöðum, ráðuneytum og flugvöllum að við leyfum danskri hönnun að njóta sín. Engum ber skylda til að gera þetta heldur virðist um að ræða óskrifaða reglu.“ 

Hversu sterkt er orðspor Íslands?

Í lok viðtalsins spyr Ásgeir hann um hversu sterkt orðspor Íslands sé á erlendri grundu og hvar styrkleikar landsins gætu legið þegar kemur að því að efla ímynd íslenskrar framleiðslu. Jens segir að það hafi t.d. ekki farið framhjá umheiminum hvað Ísland var fljótt að jafna sig á fjármálakreppunni. „Margir tengja líka Ísland við ódýra og hreina orku, að ógleymdum sjávarútveginum og náttúru landsins. Íslenski hesturinn, kraftajötnar á borð við Magnús Ver Magnússon og listamenn eins og Björk koma líka upp í hugann.“ 

Viðtalið í heild sinni:

Morgunblaðið, 4. desember 2017. 

Hér er hægt að lesa frekar um Framleiðsluþing SI sem fram fer á miðvikudaginn og skrá sig.