Fréttasafn



  • Íslenski fáninn

5. apr. 2016 Iðnaður og hugverk Lögfræðileg málefni

Ófullnægjandi lagaumhverfi um upprunamerkingar

Ófullnægjandi lagaumhverfi um upprunamerkingar - Ákvarðanir Neytendastofu sýna þörf á breytingu 

Neytendastofa hefur ákvarðað í tveimur málum sem varða erindi Samtaka iðnaðarins vegna auglýsinga og upprunamerkinga tveggja fyrirtækja, Drífu ehf. og Pennans ehf., á vörum sínum. Í báðum tilvikum var varan hönnuð á Íslandi en framleidd að hluta eða öllu leyti erlendis úr erlendu hráefni en ýmist auglýst sem íslensk eða merkt með íslenska fánanum eða útlínum af Íslandi. Í hvorugu málinu telur Neytendastofa ástæðu til að aðhafast nokkuð.

Ástæða erindis Samtaka iðnaðarins til Neytendastofu var meðal annars að fá úr því skorið hvort og þá hvernig heimilt er að vísa til þess að vara sé íslensk þar sem slíkar tilvísanir séu ekki til þess fallnar að blekkja neytendur.

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir að þessar niðurstöður Neytendastofu sýni áþreifanlega þörfina á einföldum og skýrum reglum um upprunamerkingar á Íslandi. „Lagaumhverfið sem tekur til upprunamerkinga er ófullnægjandi og hafa Samtök iðnaðarins ítrekað kallað eftir slíkum reglum. Við teljum mikilvægt að stjórnvöld bregðist við hið fyrsta til að auðvelda fyrirtækjum að finna leiðir til að upplýsa neytendur um réttan uppruna sinna vara. Við höfum talað fyrir breytingum á frumvarpi sem tekur til breytinga á fánalögum þar sem fyrirtækjum verði gert skylt, í þeim tilvikum þar sem hönnunarvara er framleidd erlendis en hönnuð af íslenskum aðila undir íslensku vörumerki, að merkja vöruna með framleiðslulandi samhliða notkun á íslenska fánanum. Villandi merkingar geta haft áhrif á kauphegðun neytenda sem margir hverjir leitast eftir íslenskri framleiðslu og gæðum.“