Fréttasafn



15. des. 2016 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Opið fyrir skráningar í keppnina Ecotrophelia Ísland 2017

Opnað hefur verið fyrir skráningu í Ecotrophelia Ísland 2017 sem er keppni meðal háskólanemenda í að þróa markaðshæf, vistvæn matvæli eða drykki. Aðstandendur keppninnar eru Matís, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Samtök iðnaðarins, ásamt íslenskum háskólum. Skráning í keppnina er til 31. janúar.

Meginmarkmið keppninnar er að stuðla að sköpun og þróun nýrra, umhverfisvænna matvara fyrir íslenskan og alþjóðlegan markað, ásamt því að auka umhverfisvitund og þjálfa frumkvöðlahugsun nemenda. Að hverju verkefni þarf að standa þverfaglegur hópur nemenda á háskólastigi á grunn- eða meistarastigi (minnst 2, mest 10 í hverjum hópi). Nemendur mega ekki vera eldri en 35 ára. Hóparnir velja sér viðfangsefni og eru hvattir til að þróa hugmynd sína í samstarfi við starfandi fyrirtæki til að öðlast hagnýta reynslu af starfsemi fyrirtækja. Aðstandendur keppninnar veita aðstoð við að tengjast fyrirtækjum ef óskað er.

Ecotrophelia Ísland 2017 keppnin verður haldin í lok maí. Þar kynna nemendahóparnir verkefni sín fyrir dómnefnd sem er skipuð sérfræðingum frá íslenskum iðnaði, rannsókna- og vísindaumhverfi og stjórnvöldum. Sigurliðið hlýtur vegleg verðlaun og rétt til að taka þátt í alþjóðlegri keppni, Ecotrophelia Europe í London í nóvember.

Viku fyrir keppnina á Íslandi þurfa hóparnir að skila skriflegri skýrslu með öllum helstu upplýsingum um vöruna. Hóparnir fá sendar nánari upplýsingar þegar þeir hafa skráð sig til keppni. Skráningareyðublöð er hægt að nálgast hér .