Fréttasafn



20. jan. 2026 Almennar fréttir Efnahagsmál Fréttatilkynning

Opinber útboð áætluð 221 milljarður króna

Í nýrri greiningu SI kemur fram að áætluð heildarfjárhæð í fyrirhuguðum verklegum útboðum þeirra 11 opinberu verkkaupa sem taka þátt í Útboðsþingi Samtaka iðnaðarins (SI), Samtaka innviðaverktaka og Mannvirkis – félags verktaka árið 2026 nemi 221 milljarði króna. Þetta er 53% eða 76 milljarða króna aukning frá þeim útboðum sem raungerðust árið 2025 en þau námu 145 milljörðum króna. Skýrist það nær alfarið af auknum fyrirhuguðum útboðum Landsvirkjunar, Framkvæmdasýslunnar – Ríkiseigna (FSRE) og Nýs Landspítala (NLSH).

Umfangsmest eru fyrirhuguð útboð Landsvirkjunar sem eru áætluð 70 milljarðar króna á árinu sem er tæplega þriðjungi af öllum fyrirhuguðum útboðum þeirra sem taka þátt í Útboðsþingi SI í ár. Aðrir sem boða umfangsmikil útboð árinu eru NLSH með 41 milljarð króna og FSRE með 35,7 milljarða króna. Samanlagt eru þessir þrír opinberu aðilar með boðuð verkútboð fyrir 146,7 milljarða króna árið 2026 eða um 66% af fyrirhuguðum útboðum ársins. Aðrir þátttakendur þingsins fyrirhuga að bjóða út verk á árinu fyrir minna en 15 milljarða króna hver. 

Aaetlud-verkutbod-2026

Á Útboðsþingi 2025 voru kynnt áform tíu opinberra aðila um fyrirhuguð útboð fyrir 264,2 milljarða króna á því ári, en að árinu loknu höfðu aðeins útboð fyrir 145 milljarða króna raungerst. Útboð síðasta árs voru því um 119 milljörðum minni en boðað var. Mestur munur var á fyrirhuguðum útboðum og raunútboðum hjá Landsvirkjun eða 68 milljarðar króna. Sá munur skýrir um 57% af fjárhæð þeirra fyrirhuguðu útboða sem ekki raungerðust á árinu

Rétt er að árétta að þær áætlanir um útboð sem kynntar eru á Útboðsþingi SI eru ekki fastar í hendi og ber því að taka þeim með fyrirvara. Þá er einnig rétt að taka fram að verkefni sem fara í útboð á árinu geta komið til framkvæmda á næstu árum. 

Hér er hægt að nálgast greiningu SI.


Viðskiptablaðið, 20. janúar 2026.

mbl.is, 20. janúar 2026. 

Vísir, 20. janúar 2026.

Sýn, 20. janúar 2026.