Fréttasafn



30. jan. 2025 Almennar fréttir Efnahagsmál Innviðir Mannvirki

Opinber útboð áætluð 264 milljarðar króna í ár

Áætluð heildarfjárhæð í fyrirhuguðum verklegum útboðum þeirra tíu opinberu verkkaupa sem taka þátt í Útboðsþingi Samtaka iðnaðarins (SI), Samtaka innviðaverktaka og Mannvirkis – félags verktaka 2025 nemur 264,2 milljörðum króna. Þetta kemur fram í nýrri greiningu SI. Um er að ræða nær tvöföldun frá þeim útboðum sem raungerðust árið 2024 en þau námu 134,5 milljörðum króna. Þrír verkkaupar af tíu boða 90% aukningarinnar, þ.e. Landsvirkjun, Framkvæmdasýslan - Ríkiseignir (FSRE) og Nýr Landspítali (NLSH). 

Umfangsmest eru fyrirhuguð útboð Landsvirkjunar sem eru áætluð 92 milljarðar króna fyrir árið 2025. Það nemur ríflega 35% af öllum fyrirhuguðum útboðum opinberra aðila sem taka þátt í Útboðsþingi SI í ár. Aðrir sem boða umfangsmikil útboð á árinu eru FSRE með 50,2 milljarða króna og NLSH með 42,5 milljarða króna. Samanlagt eru þessir þrír aðilar með boðuð verkútboð fyrir 184,7 milljarða króna á árinu eða um 70% af fyrirhuguðum útboðum 2025. Aðrir þátttakendur þingsins fyrirhuga að bjóða út verk fyrir minna en 20 milljarða króna hver á árinu.

Hér er hægt að nálgast greininguna í heild sinni.

Utbodsthing-2025