Fréttasafn23. ágú. 2021 Almennar fréttir Efnahagsmál Starfsumhverfi

Peningastefnunefnd hækki ekki vexti

Samtök iðnaðarins telja mikilvægt að peningastefnunefnd Seðlabankans fari varlega í vaxtahækkanir um þessar mundir. Þetta kemur fram í nýrri greiningu SI sem ber yfirskriftina Hyggilegt að hækka ekki vexti. Í greiningunni segir að ljóst sé að verðbólgan sé að stórum hluta tímabundin og góðar líkur á að hún hjaðni nokkuð hratt á næstunni en hún sé þegar byrjuð að hjaðna. Í ljósi stöðu Covid sé hins vegar mikil óvissa um efnahagshorfur. Bólusetning hafi ekki skilað þeim árangri sem vonast var eftir og nýtt afbrigði veirunnar sé í mikilli útbreiðslu bæði hér á landi og erlendis. Efnahagsbatinn sem nú megi greina í hagtölum sé því brothættur. Atvinnuleysi sé enn umtalsvert og langtímaatvinnuleysi áhyggjuefni. Þrátt fyrir að eftirspurn hafi tekið við sér séu mörg fyrirtæki enn að glíma við mjög erfiðar afleiðingar efnahagsniðursveiflunnar. Þá segir í greiningunni að mikilvægt sé að mati SI að peningastefnunefndin leyfi efnahagsbatanum að njóta vafans um þessar mundir og fari hægt í hækkun vaxta. 

Þrír vaxtaákvörðunardagar eru til áramóta en sá næsti er 25. ágúst. Gefi það nefndinni svigrúm til að fara sér hægt. Telja samtökin að bankinn ætti ekki að hækka vexti 25. ágúst. Skaðinn sem fylgir hörðum aðgerðum í peningamálum um þessar mundir séu mun meiri en ávinningurinn að mati SI.

Hér er hægt að nálgast greiningu SI.

Verdbolga-og-vaentingar

 

Atvinnuleysi_1629710093044