Fréttasafn



28. okt. 2019 Almennar fréttir Efnahagsmál Iðnaður og hugverk

Prentmet Oddi tekur til starfa

Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt kaup Prentmets á Prentsmiðjunni Odda. Nafn sameinaðs félags er Prentmet Oddi með aðsetur að Höfðabakka 7 þar sem Oddi hefur verið til húsa. Hjá sameinuðu félagi starfa um 100 manns.

Í fréttatilkynningu kemur fram að íslenskur prentiðnaður sé í harðri alþjóðlegri samkeppni þar sem samkeppnishæfni innlendrar framleiðslu hafi beðið hnekki, m.a. vegna gengis- og launaþróunar. Sameinað fyrirtæki muni snúa vörn í sókn til að tryggja framleiðslu á prentverki á Íslandi til lengri tíma. Með kaupunum verði til sterkt fyrirtæki sem bjóði upp á heildarlausnir í prentverki og fyrsta flokks þjónustu, byggt á áratuga reynslu og þekkingu starfsfólks.

Þá segir að Prentmet Oddi sé leiðandi í vinnslu umbúða og eina fyrirtækið sem geti fullunnið harðspjaldabækur og á næstu misserum verði unnið að því að styrkja tækjakost fyrirtækisins enn frekar. Fyrirtækið sé Svansvottað og sé í fremstu röð hvað varðar lágmörkun neikvæðra áhrifa á umhverfi og heilsu. Stefnt sé að því að vera leiðandi í umhverfis- og loftslagsmálum og halda áfram að stuðla að sjálfbærni og skógrækt.

Prentsmiðjan Oddi var stofnuð 9. október 1943 af Baldri Eyþórssyni, Finnboga Rúti Valdimarssyni, Björgvini Benediktssyni og Ellert Ág. Magnússyni. Prentmet var stofnað 4. apríl 1992 af hjónunum Guðmundi Ragnari Guðmundssyni og Ingibjörgu Steinunni Ingjaldsdóttur sem eiga og reka sameinað fyrirtæki. Guðmundur var á meistarasamning í prentsmíði hjá Odda 1985-1988 og var Þorgeir Baldursson forstjóri, meistari hans.