Fréttasafn



13. ágú. 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Ráðast þarf nú þegar í umbætur í húsnæðismálum

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir að húsnæðismálin séu munaðarlaus í grein sinni sem birtist í Morgunblaðinu fyrir skömmu. Þar sem ábyrgð er dreift á mörg ráðuneyti er enginn einn ráðherra sem getur höggvið á hnútinn og flækjustigið er allt of hátt en húsnæðismál eru í velferðarráðuneytinu, mannvirkja- og skipulagsmál í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og málefni sveitarstjórna í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. 

Öflugt innviðaráðuneyti að danskri fyrirmynd

Sigurður segir í greininni að þessu megi breyta á einfaldan og skjótan hátt með því að færa húsnæðismál og mannvirkjamál í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið þannig að úr verði öflugt innviðaráðuneyti að danskri fyrirmynd. Það rími einnig vel við áherslur ríkisstjórnarinnar um sókn í uppbyggingu innviða. Í framhaldinu þurfi að einfalda regluverkið svo byggja megi vandaðar íbúðir hratt og á hagkvæman hátt. Sveitarfélög þurfi að vinna í skipulagsmálum hjá sér til að tryggja næga uppbyggingu íbúða. Einnig þurfi þau að gera málsmeðferð skilvirkari í þágu hraðari og þá um leið hagkvæmari uppbyggingar. Þannig verði húsnæðisvandinn leystur. Hann segir að ráðast þurfi í ofangreindar umbætur nú þegar áður en vandinn aukist enn frekar.

Hér er hægt að lesa grein Sigurðar í heild sinni.