Fréttasafn



31. maí 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Samtök álframleiðenda á Íslandi

Rætt um nýsköpun, sjálfbærni og loftslagsmál á ársfundi Samáls

Rætt var um nýsköpun, sjálfbærni og loftslagsmál á ársfundi Samáls sem bar yfirskriftina „Hring eftir hring eftir hring“ og fór fram í Norðurljósum Hörpu 25. maí sl. Rannveig Rist, forstjóri ISAL, hóf fundinn á því að tala um stöðu og horfur í áliðnaði. Þar kom fram að útflutningstekjur íslenskra álvera námu um 400 milljörðum eða um fjórðungi útflutningstekna þjóðarbúsins og hafa aldrei verið hærri. „Stundum er talað eins og afkoma álveranna komi Íslendingum ekki við af því að þetta séu alþjóðleg fyrirtæki, en því fer fjarri lagi. Ef horft er til innlends kostnaðar álveranna þá nam hann 174 milljörðum eða 44% af heildartekjum álvera. Á hverju ári kaupa álver vörur og þjónustu af hundruðum innlendra fyrirtækja og eiga sum hver fjöregg sitt undir þeim viðskiptum.“

Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins fagnaði því frumkvæði stjórnvalda að leita samstarfs við atvinnulífið. „Það eru auðvitað stórtíðindi að iðnaðurinn, þar á meðal áliðnaðurinn, skuli setja sér markmið um kolefnishlutleysi og vera með aðgerðaáætlun til að ná þeim markmiðum.“ Þar kom hann inn á yfirlýsingu áliðnaðarins frá 2019, sem einnig var undirrituð af stjórnvöldum, um að leitað yrði leiða til að ná kolefnishlutleysi árið 2040. „Vinnan við loftslagsvegvísi atvinnulífsins er gríðarlega góð og skilar fullt af tillögum um hvernig komast megi í mark. Og ég hlakka til að sjá hvernig stjórnvöld munu grípa þann bolta og fara í samstarf við atvinnulífið, ekki bara um skatta og kvaðir, heldur líka finna réttu leiðirnar og hvatana til að láta þetta gerast.“ Hann sagist vilja taka undir orð Rannveigar, um að gríðarlegur árangur hefði náðst nú þegar, því „frá árinu 1990 hefur losun í íslenskum áliðnaði dregist saman um 75% á hvert framleitt tonn, og umhverfisáhrif áliðnaðar eru hvergi minni.“

Á vef Samáls er hægt að nálgast upptökur og erindi ársfundarins. 

Myndir: BIG.

Samal_arsfundur_2023-7Rannveig Rist, stjórnarformaður Samáls og forstjóri ISAL.

Samal_arsfundur_2023-18Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Samal_arsfundur_2023-20Steinunn Dögg Steinsen, yfirmaður öryggis- og umhverfismála hjá Century Aluminum, móðurfélagi Norðuráls, Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, og Dagmar Ýr Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Alcoa Fjarðaáls.

Samal_arsfundur_2023-31Tinna Gunnarsdóttir, vöruhönnuður.

Samal_arsfundur_2023-41Sunna Ólafsdóttir Wallevik, stofnandi og framkvæmdastjóri Gerosion, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Dagmar Ýr Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Alcoa Fjarðaáls.

Samal_arsfundur_2023-42Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls.

Árni Sigurjónsson, formaður SI, Gunnar Guðlaugsson, forstjóri Norðuráls, og Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður SA.

Mosaik3