Fréttasafn



16. apr. 2025 Almennar fréttir Menntun Samtök menntatæknifyrirtækja

Rætt um persónuvernd og nýsköpun í skólastarfi

Á fundi Samtaka menntatæknifyrirtækja, IEI, og Kennarasambands Íslands, , var fjallað um áskoranir og tækifæri í tengslum við persónuvernd, stafrænt námsefni og nýsköpun í skólastarfi. Yfirskrift fundarins sem fór fram í Húsi atvinnulífsins 15. apríl var „Er Ísland að ganga lengra en þörf er á þegar kemur að persónuvernd?“ 

Góð mæting var á fundinn en þar voru saman komin fulltrúar úr skólasamfélaginu, fyrirtækjum, stjórnvöldum og stofnunum sem skiptust á skoðunum um hvernig megi tryggja jafnvægi milli öryggis, nýsköpunar og faglegs frelsis í skólastarfi.

Vangaveltur um ofmat á persónuvernd

Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, hóf fundinn með hugleiðingum um stöðuna eins og hún er í dag. Hann velti því upp hvort Ísland væri að ganga lengra en nauðsynlegt er í túlkun og framkvæmd persónuverndarlaga, einkum í skólakerfinu. Hann benti á að of strangar túlkanir gætu komið í veg fyrir eðlilega og skapandi notkun tækni í skólastarfi.

Ragnar Þór Pétursson, kennari og fyrrverandi formaður KÍ, fylgdi þessu eftir með því að draga upp sögulega mynd af því hvernig viðhorf til frelsis barna hafi breyst með tímanum. Hann benti á að Persónuvernd hefði farið offari gegn tækninotkun í skólum án þess að lagaheimildir stæðu þar að baki. Afleiðingin af því væri grafalvarleg staða. Hann varaði við því að með sama framhaldi myndi nemendur skorta hæfni til virkrar þátttöku í krefjandi samfélagsbreytingum.

Íris E. Gísladóttir, formaður Samtaka menntatæknifyrirtækja, lagði áherslu á að fyrirtæki á þessu sviði vilji vinna samkvæmt lögum og bestu siðareglum. Hún sagði þó að reglur væru oftar en ekki loðnar og að vanti skýrari leiðbeiningar, sérstaklega frá Persónuvernd. Hún lagði áherslu á að Persónuvernd gegni einnig mikilvægu leiðbeiningahlutverki, sem er lögbundin og að samráð þurfi að vera virkt á milli skólasamfélags, fyrirtækja og eftirlitsaðila.

Skýr stefna og tæknilæsi lykilatriði

Í pallborðsumræðum og spurningum úr sal kom fram skýr krafa um að stjórnvöld og sveitarfélög setji sér markvissa stefnu í tækninotkun og persónuvernd í menntakerfinu. Þar kom einnig fram að framboð á námsgögnum og tæknilæsi sé grunnforsenda þess að nýta möguleika í námi og kennslu á ábyrgan hátt.

Á fundinum kom fram að mikil þörf er á opinni umræðu og samstarfi um þessi mál, og að jafnvægið milli nýsköpunar og persónuverndar verði að byggjast á skýrum reglum, trausti og sameiginlegri sýn á framtíð menntunar.

2_1744819951575Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands.

4_1744820647911Ragnar Þór Pétursson, kennari og fyrrverandi formaður KÍ.

6_1744819973569Íris E. Gísladóttir, formaður Samtaka menntatæknifyrirtækja. 

5_1744820671852

8_1744820726682