Rætt um vöxt og viðnámsþrótt á norrænum fundi atvinnurekenda
Formenn og framkvæmdastjórar norrænna atvinnurekendasamtaka héldu árlegan fund í Helsinki dagana 11.-12. september. Yfirskrift fundarins var Vöxtur og viðnámsþróttur á Norðurlöndunum (e. Growth and Preparedness in Nordic Countries). Árni Sigurjónsson, formaður SI, ásamt Sigurði Hannessyni framkvæmdastjóra SI, og Lilju Björk Guðmundsdóttur, yfirlögfræðingi SI, sóttu fundinn. Fundurinn er vettvangur fyrir fulltrúa norræns atvinnulífs til að ræða sameiginlegar áskoranir og tækifæri og skilgreina næstu skref í sameiginlegu starfi, bæði innan Norðurlanda og í samskiptum við Evrópusambandið.
Á fundinum var rætt um tækifæri og sameiginlegar áskoranir varðandi vöxt og hvernig Norðurlöndin geti stuðlað að auknum fjárfestingum og nýsköpun. Viðnámsþróttur var eitt eitt helsta umræðuefni fundarins og ræddu fundarmenn í því samhengi um innviði, orku- og samgöngumál, fjarskiptatengingar, tækni með tvíþætt notagildi og aðgerðir til að tryggja aðfangakeðjur.
Finnsku atvinnurekendasamtökin EK héldu utan um skipulagningu fundarins og veittu mikilvæga innsýn í samvinnu atvinnulífs og stjórnvalda til að efla viðnámsþrótt samfélagsins. Boðið var upp á fyrirlestra frá helstu sérfræðingum Finnlands í viðnámsþrótti þar á meðal voru Dr. Aki Laiho, framkvæmdastjóri finnsku neyðarbirgðastofnuninnar (NESA), sem fjallaði um mikilvægi samfélagslegrar viðbragðsgetu á neyðartímum, sérfræðingar frá finnska varnarmálaskólanum og borginni Helsinki. Tero Kiviniemi, forstjóri Destia, viðbúnaðaraðgerðir sem fyrirtækið hefur innleitt í sinni starfsemi og Jukka Maksimainen meðeigandi hjá McKinsey ræddi um viðnámsþrótt á Norðurlöndum. Ráðherra vinnumarkaðsmála, Matias Marttinen, kynnti áherslur finnskra stjórnvalda í atvinnumálum.
Fundurinn var mikilvægur liður í því að efla samstarf atvinnulífs á Norðurlöndum en samtökin hafa einnig í sameiningu eflt samstarf atvinnulífs við stjórnvöld með árlegum fundum fulltrúa atvinnulífs og forsætisráðherra Norðurlanda.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, Lilja Björk Guðmundsdóttir, yfirlögfræðingur SI, og Árni Sigurjónsson, formaður SI.