Fréttasafn15. feb. 2022 Almennar fréttir Mannvirki Samtök rafverktaka

Rafiðnaður ekki kynntur almennilega fyrir konum

Hjá Rafal sem er meðal aðildarfyrirtækja Samtaka rafverktaka, SART, er öflug framleiðsludeild og deild rannsókna og þróunar sem sérhæfir sig í tæknilega flóknum verkefnum í raforkugeiranum. Í viðtali við Ingibjörgu Lilju Þórmundsdóttur, mannauðsstjóra Rafals, í sérblaði Fréttablaðsins um Félag kvenna í atvinnulífinu kemur fram að hjá fyrirtækinu starfa 17 konur, þar af 9 sem eru rafmagnsmenntaðar. „Hlutföllin eru líka að verða jafnari í stjórnendahópnum, en í framkvæmdastjórn Rafal sitja í dag þrjár konur og tveir karlar. Erla Björk Þorgeirsdóttir leiðir svo Verkfræðistofuna Afl og orku, en ég held að það séu afar fáar framkvæmdastýrur á verkfræðistofum á Íslandi.“

Rafiðnaðurinn ekki kynntur almennilega fyrir konum

Ingibjörg segir í Fréttablaðinu að hluti vandans sé fólginn í því að rafiðnaðurinn hafi ekki verið kynntur almennilega fyrir konum. „Ég væri ansi rík ef ég hefði fengið krónu í hvert sinn sem einhver sagði við mig „það sækja ekki neinar konur um… Þetta er náttúrulega engin afsökun fyrir því að gera ekki neitt. Við þurfum að kynna þennan iðnað fyrir ungum konum, hvetja þær til að sækja sér menntun í faginu og bjóða þeim svo upp á vinnustað þar sem þær fá að njóta sín. Við verðum að galopna þennan heim fyrir þeim. Rafvirkjun er til dæmis starf sem hentar konum ansi vel, þar sem mikil áhersla er lögð á nákvæmnisvinnu og öryggi.“

Samfélagslega mikilvægt verkefni

Ingibjörg segir að þróun síðastliðinna ára hafi verið mjög góð í orkugeiranum. „Í dag erum við með gríðarlega flottar konur eins og Höllu Hrund orkumálastjóra og Margréti Halldóru sem er formaður félags íslenskra rafvirkja og eru þær mikilvægar fyrirmyndir fyrir konur í þessum iðnaði. Eins hafa nokkur orkufyrirtæki náð mjög góðum árangri en þar langar mig sérstaklega að hrósa fyrirtækjum Orkuveitu Reykjavíkur fyrir allt það sem þau hafa lagt á vogarskálina í þessum málaflokki. En til þess að við getum raunverulega farið að hreyfa nálina verðum við öll að standa saman. Við þurfum öll að taka þátt í þessari byltingu. Ég vil því hvetja alla okkar samstarfsaðila og samkeppnisaðila til að taka höndum saman og taka þátt í þessu samfélagslega mikilvæga verkefni.“

Fréttablaðið, 20. janúar 2022.

Frettabladid-20-01-2022_2