Fréttasafn



21. jún. 2024 Almennar fréttir Mannvirki Samtök rafverktaka

Rafmenn styðja við rafiðnaðardeild VMA

Fulltrúar eigenda rafverktakafyrirtækisins Rafmenn ehf. sem er aðildarfyrirtæki Samtaka rafverktaka afhendu Verkmenntaskólanum á Akureyri, VMA, gjafabréf að verðmæti 500 þúsund krónur hjá Fagkaupum í tilefni 40 ára afmælis VMA.

Í tilefni þessa segir Eva Dögg Björgvinsdóttir, einn eiganda fyrirtækisins, að með gjöfinni vilji Rafmenn ehf. styrkja og styðja við rafiðnaðardeild skólans og þannig hvetja nemendur til dáða. „Við höfum fengið marga efnilega og frábæra rafvirkja frá skólanum og viljum endurgjalda það á einhvern hátt og kunnum við að þakka skólanum fyrir það. Það er mikilvægt að hafa þetta nám hér á Akureyri og viljum leggja okkar af mörkum að halda í og efla tengslin við skólann enn frekar.“

Rafmenn ehf. var stofnað árið 1997 og í dag starfa 38 starfsmenn hjá fyrirtækinu þar af 6 nemar. Fyrirtækið býður upp á alhliða þjónustu í heimilis- og fyrirtækjalögnum, öryggis-, síma- og tölvulögnum. Þá sinnir þjónustudeild fyrirtækisins bilanagreiningu og viðgerðum á hinum ýmsu tækjum og tólum fyrir fjöldan allan af fyrirtækjum og stofnunum ásamt uppsetningu á nýjum rafbúnaði. Einnig býður fyrirtækið upp á þjónustu við ársúttektir á brunakerfum og neyðarlýsingu. 

Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari VMA, sem er önnur frá vinstri, fær afhent gjafabréf frá Rafmönnum í tilefni 40 ára afmælis skólans.