Fréttasafn16. des. 2021 Almennar fréttir Innviðir Orka og umhverfi Starfsumhverfi

Raforkumál sett í forgang með nauðsynlegum framkvæmdum

Blikur eru á lofti í raforkumálum landsmanna segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í grein í Morgunblaðinu með yfirskriftinni Aðgerða er þörf í orkumálum þjóðarinnar. Þar segir Sigurður að undanfarið hafi umræða skapast um hvort raforka sé næg eða ekki og sitt sýnist hverjum. Staðreyndirnar tali sína máli. Skerða hafi þurft raforku til ákveðinna atvinnugreina og hluti landsmanna hafi þurft að búa við það eftir óveður að vera án raforku í marga daga. Þá hafi komið fram að ónýtt raforka renni til sjávar engum til gagns vegna raforkukerfis sem sé úr sér gengið.

Búið að selja þá raforku sem tiltæk er og hún því uppseld

Sigurður segir að óhætt sé að fullyrða að með núverandi orkusamningum sé búið að selja þá raforku sem tiltæk sé og hún því uppseld. Líkt og Landsvirkjun hafi greint frá þá hafa vinnslumet ítrekað verið slegin í vinnslukerfi Landsvirkjunar, nú síðast föstudaginn 3. desember þegar vinnsla fyrirtækisins hafi í fyrsta skipti farið yfir 1.900 MW. „Við slíkar aðstæður verður mjög þröngt um tiltækt afl í vinnslukerfi Landsvirkjunar og það í raun alveg upp urið.“ Þá geri orkuspá hins opinbera ráð fyrir aukinni raforkunotkun landsmanna á næstu árum og áratugum. Hann segir að það sé því ljóst að ef mæta eigi þörfum sem fylgi orkuskiptum og öðrum orkusæknum tækifærum sem felist í grænum umskiptum, svo ekki sé talað um raforkuöryggi fyrir alla landsmenn, þá verði að framkvæma hvoru tveggja; bæta núverandi raforkuflutningskerfi og virkja meira. Sigurður segir að endurskoða þurfi regluverk orkumála sem sé allt of flókið auk þess sem opna þurfi fyrir vindorku en núverandi kerfi geri nánast eingöngu ráð fyrir að raforka sé unnin úr vatnsafli og jarðhita.

Áhyggjuefni ef ekki tekst að sækja tækifærin sem felast í grænni orku

Þá segir Sigurður að það sé áhyggjuefni ef ekki takist að sækja tækifærin sem felist í aukinni eftirspurn eftir grænni orku. „Við búum svo vel að hafa aðgang að nægri slíkri orku en hana þarf að vinna og nýta til að skapa verðmæti fyrir þjóðarbúið. Við eflum samkeppnishæfni Íslands og þar með lífskjör allra landsmanna með aðgengi að nægu magni raforku til að mæta kröfum framtíðarinnar.“

Hefjast þarf handa í nauðsynlegum framkvæmdum

Í niðurlagi greinar sinnar segir Sigurður að ný ríkisstjórn hafi kynnt framsækna framtíðarsýn. Því séu vonir bundnar við að raforkumál landsmanna verði sett í forgang með nauðsynlegum framkvæmdum svo Ísland geti áfram verið í fremstu röð í framleiðslu og nýtingu á endurnýjanlegri orku. „Hefjast þarf handa hið fyrsta.“

Hér er hægt að lesa greinina.

Morgunblaðið, 16. desember 2021.

Morgunbladid-16-12-2021