Fréttasafn



15. júl. 2019 Almennar fréttir Efnahagsmál Orka og umhverfi

Raforkuspá missir marks þar sem ekki er rætt við notendur

Eftirspurn eftir raforku fer vaxandi með aukinni fólksfjölgun, orkuskiptum og auknum umsvifum í atvinnulífinu. Undanfarna daga hefur forstjóri Landsnets vakið athygli á yfirvofandi hættu á orkuskorti með tilheyrandi skerðingum. Önnur orkufyrirtæki hafa tekið undir þetta. Vinna við raforkuspá er í höndum Orkustofnunar sem gefur út nýja orkuspá árlega. Ekki er rætt við notendur um þeirra áform og því hefur spáin misst marks undanfarin ár. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í grein sinni í Fréttablaðinu í dag undir yfirskriftinni Orkuspá missir marks

Tómlæti að ræða ekki við notendur

Sigurður segir að óhætt sé að taka undir gagnrýni forstjóra Landsnets á umrædda starfshætti og slagsíðu varðandi orkuspána. Slíkt tómlæti – að ræða ekki við notendur – geti ekki annað en orsakað ósamræmi á milli opinberrar raforkuspár og raunverulegrar raforkuþarfar notenda og því þurfi að breyta. Hann segir það blasa við að slík raforkuspá missi marks og ákvarðanir byggðar á orkuspánni leiði til orkuskorts. Slíkar skerðingar munu óhjákvæmilega þýða rask á daglegu lífi landsmanna og minni sköpun verðmæta, sem bitni á lífsgæðum landsmanna til lengri tíma litið.

Í niðurlagi greinar sinnar segir Sigurður að stefnur stjórnvalda og áherslur sem tengjast orkunotkun þurfi að tala saman og taka um leið tillit til stigvaxandi orkuþarfar jafnt atvinnulífs sem heimila í landinu. Eins þurfi að tryggja, eins og forstjóri Landsnets bendi á, að ábyrgð á nægjanlegu afli sé skýr og hafi skilvirkni raforkukerfisins að leiðarljósi. Úrbóta sé sannarlega þörf.

Hér er hægt að lesa grein Sigurðar í heild sinni.