Rafverktakar á ráðstefnu og aðalfundi EuropeOn
Ráðstefna EuropeOn, í samvinnu við þýsku samtök raf- og upplýsingatækniiðnaðarins ZVEH, fór fram dagana 17.-18. október 2024 í Berlín. Á ráðstefnunni komu saman lykilfulltrúar rafverktakageirans í Evrópu til að ræða framtíð rafiðnaðarins og sjálfbæra þróun í greininni. Þar á meðal voru fulltrúar Samtaka rafverktaka, Sart, Hjörleifur Stefánsson, formaður Sart, og Kristján D. Sigurbergsson, framkvæmdastjóri Sart.
Dagskráin hófst með hringborðsumræðum, en á eftir fylgdu erindi frá ýmsum fyrirlesurum. Meðal þeirra var Adalbert Neumann frá Busch-Jaeger Elektro GmbH, sem ræddi alþjóðlega strauma í raforkugeiranum. Dr. Torsten Hager frá Hager Electro GmbH fjallaði um mikilvægi orkustjórnunar fyrir sjálfbæra framtíð og Alexander Grams frá ABB Stotz-Kontakt GmbH kynnti nýstárlega notkun sýndarveruleikagleraugna í raforkugeiranum.
Einnig voru umræður um framtíðarlausnir með nýjum tólum og markaðstorgum. Þar á meðal voru erindi um nýtingu gagna og stafrænna vörupassa sem mikilvæg tæki í viðskiptum, með framlagi frá Paul Seifert, Prof. Thomas Knothe og Ludwig Klatzka.
Aðalfundur EuropeOn var haldinn 18. október þar sem fráfarandi formanni Martin Bailey frá ensku rafverktakasamtökunum ECA var þakkað fyrir störf sín í þágu samtakanna. Í framhaldinu var Kimmo Hallamaa, fulltrúi frá finnsku rafverktakasamtökunum STUL, kosinn nýr formaður EuropeOn til næstu þriggja ára.
Á myndinni hér fyrir ofan eru Hjörleifur Stefánsson, formaður Sart, Kimmo Hallamaa, nýr formaður EuropeOn, og Kristján D. Sigurbergsson, framkvæmdastjóri Sart.
Martin Bailey, fráfarandi formaður EuropeOn, og Kristján D. Sigurbergsson, framkvæmdastjóri Sart.
Hjörleifur Stefánsson, formaður Sart, kynnir sér raflagnir með aðstoð sýndarveruleika