Rekur mikla svartsýni stjórnenda til áfalla í útflutningsgreinum
Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, segir í frétt Morgunblaðsins að einkum megi rekja miklu svartsýni stjórnenda til hagvaxtarhorfa sem kemur fram í nýrri könnun Maskínu til þeirra mörgu áfalla sem dunið hafa á útflutningsgreinunum á mjög skömmum tíma. „Þessi áföll snerta þrjár af fjórum meginstoðum útflutnings: Hjá orkusæknum iðnaði hófust vandræðin hjá PCC á Bakka og síðar bættust við vandamál hjá Elkem og Norðuráli, og reiknast okkur til að heildaráhrifin fyrir orkusækna iðnaðinn allan geti samtals numið 88 milljörðum króna í minnkuðum útflutningstekjum.“ Gjaldþrot Play hafi síðan haft áhrif á ferðaþjónustuna og þá virðist Icelandair eiga í basli auk þess að útlit er fyrir mikinn samdrátt í komum skemmtiferðaskipa vegna hækkaðra gjalda. „Sjávarútvegurinn stendur síðan frammi fyrir samdrætti í aflaheimildum fyrir uppsjávartegundir og bætist það við áhrifin af hækkun veiðigjalda fyrr á árinu.“ Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að það sé mat Ingólfs að ekki sé að undra í ljósi neikvæðra frétta að væntingar stjórnenda skuli vera á niðurleið. „En síðan verður að muna að þetta eru þeir aðilar sem taka ákvarðanir varðandi rekstur fyrirtækja, s.s. um fjárfestingar og mannaráðningar, og geta væntingar um niðursveiflu haft þar áhrif.“ Hann bætir við að kannski sé það eina jákvæða við lakari efnahagshorfur að þar með aukist líkurnar á að verðbólga muni hjaðna hraðar en ella.
Of langt að bíða með vaxtalækkun fram í febrúar
Ingólfur segir í frétt Morgunblaðins að ástandið kalli á aðgerðir af hálfu stjórnvalda og brýnast af öllu sé að stýrivextir verði lækkaðir til að mæta lakari efnahagshorfum. „Næsti vaxtaákvörðunardagur er á miðvikudaginn og sá næsti ekki fyrr en í febrúar, og væri of langt að bíða þangað til með að slaka á aðhaldinu í peningastjórnuninni.“ Þá kemur fram í fréttinni að Ingólfi þætti líka æskilegt að rýmka reglur Seðlabankans um lánveitingar vegna húsnæðiskaupa: „Við þær aðstæður sem eru í dag veldur þetta því að margt fólk situr einfaldlega fast á leigumarkaði þar sem það borgar mun hærra hlutfall ráðstöfunartekna í leigu.“
Morgunblaðið / mbl.is, 18. nóvember 2025.


