Fréttasafn



25. jún. 2021 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Reykjavíkurborg svarar ekki áskorun um útboð

„Í kjölfar þess að úrskurður féll í okkar máli sendum við áskorun á sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um að bjóða LED-væðinguna út. Svör hafa borist frá Hafnarfirði og Garðabæ um að það verði gert en borgin hefur ekki svarað,“ segir Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, í Viðskiptablaðinu en Samtök iðnaðarins kærðu Reykjavíkurborg vegna LED-væðingar ljósastaura þar sem borgin samdi við ON án útboðs.  

Í Viðskiptablaðinu er umfjöllun um brot Reykjavíkurborgar á lögum um opinber innkaup en borginni hefur í fjórgang verið gert að greiða sekt fyrir brot á lögunum. Í blaðinu kemur fram að þrátt fyrir úrskurði hefur borgin haldið áfram uppteknum hætti og tekið er dæmi um að ON hafi auglýsti nýverið, eftir að úrskurðirnir lágu fyrir, laust til umsóknar starf „rafmagnaðs leiðtoga“ sem ætlað er að „leiða hóp fagfólks sem sinnir viðhaldi og uppsetningu á götuljósum og hleðslustöðvum ON“.

Viðskiptablaðið, 24. júní 2021.