Fréttasafn27. mar. 2020 Almennar fréttir Efnahagsmál Iðnaður og hugverk Mannvirki Nýsköpun Starfsumhverfi

Reykjavíkurborg sýnir gott fordæmi fyrir önnur sveitarfélög að fylgja

Að mati Samtaka iðnaðarins stígur Reykjavíkurborg, stærsta sveitarfélag landsins, nú fram með góðu fordæmi fyrir önnur sveitarfélög til að fylgja. Lækkun og frestun gjalda og skatta ásamt auknum fjárfestingum var meðal þess sem borgarstjórn Reykjavíkur kynnti í gær sem fyrstu viðbrögð borgarinnar við áfallinu sem COVID-19 faraldurinn hefur á velferð borgarbúa. Aðgerðirnar eru í anda þeirra hugmynda sem Samband íslenskra sveitarfélaga sendi frá sér fyrir um viku síðan þar sem sveitarfélög voru hvött til að skapa viðspyrnu fyrir íslenskt atvinnulíf í ljósi þess samdráttar sem blasir við í þjóðarbúskapnum. 

Fresta gjalddögum og lækka fasteignaskatta úr 1,65% í 1,6% á næsta ári

Í aðgerðum borgarinnar felst að veittur verður frestur á greiðslu allt að þriggja gjalddaga fasteignaskatta atvinnuhúsnæðis vegna ársins 2020. Einnig hyggst borgin lækka fasteignaskatta af atvinnuhúsnæði úr 1,65% niður í 1,6% á næsta ári. Fasteignaskattar borgarinnar á atvinnuhúsnæði hafa hækkað mikið á síðustu árum en stjórn sveitarfélagsins hefur haldið álagningunni stöðugri í lögbundnu hámarki skattsins, þ.e. 1,65% samhliða hratt hækkandi álagningarstofni. Í ár er áætlað að önnur hver króna af fasteignasköttum fyrirtækja í landinu renni í borgarsjóð en heildarskattbyrðin nemur um 28 mö.kr. Aðgerðir borgarinnar að lækka fasteignaskatta eru því jákvæðar en benda má á að með því er borgin að fylgja því eftir sem ýmis önnur sveitarfélög hafa gert á síðustu árum og mörg hver með myndarlegri hætti. Samtök iðnaðarins vona að lækkunin nú sé einungis fyrsta skref borgaryfivalda í lækkunarferli þessarar umfangsmiklu skattheimtu.

5 milljarða króna viðbótarfjárfestingar

Í aðgerðum borgarinnar felast einnig auknar fjárfestingar á þessu ári. Um er að ræða viðbótarfjárfestingar sem geta samanlagt orðið 5 ma.kr. Það er talsverð aukning en fjárfestingar borgarinnar í ár eru um 20 ma.kr. Borgin vill þannig ýta undir mannaflsfrek viðhaldsverkefni í borginni til að stemma stigum við auknu atvinnuleysi. Það er mat Samtaka iðnaðarins að þetta sé afar jákvætt skref sem borgin tekur með þessu enda hafa samtökin hvatt til þess að ráðist sé í auknar opinberar fjárfestingar til að milda niðursveifluna og undirbyggja hagvöxt litið til lengri tíma. Samtök iðnaðarins hafa ítrekað bent á að ástand innviða sé víða bágborið vegna ónægs viðhalds á síðustu árum og þörf er á umtalsverðum nýfjárfestingum í innviðum landsins. Viðhaldsþörfin var áætluð 372 milljarðar króna í skýrslu um ástand og framtíðarhorfur innviða sem kom út á vegum SI og Félags ráðgjafarverkfræðinga. Það er því af nægu að taka í þessu efni.

Átak í uppbyggingu hagkvæms húsnæðis í samvinnu við Samtök iðnaðarins

Til að koma í veg fyrir fyrirsjáanlegan skort á húsnæðismarkaði hyggst Reykjavíkurborg ráðast í nýtt átak í húsnæðisuppbyggingu með áherslu á hagkvæmar íbúðir, almennar íbúðir og öruggt og nægjanlegt framboð lóða og aukins byggingarréttar á grundvelli aðalskipulags Reykjavíkur. Áætlun um lóðaúthlutanir, frekari stofnframlög og húsnæðisuppbyggingu verður uppfærð í samráði við Samtök iðnaðarins, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, verkalýðshreyfinguna og stjórnvöld. Stefnt er að því að áfangaskil verði í maí og fullmótuð áætlun liggi fyrir í september.

Ýta á undir nýsköpun og notkun tæknilausna

Samtök iðnaðarins fagna því að í aðgerðum Reykjavíkurborgar felist einnig vilji til að ýta undir nýsköpun og notkun tæknilausna sem viðbrögð við áhrifum COVID-19 faraldursins. Í þessu sambandi verður fjárfestingum í innleiðingu nýrrar tækni hjá borginni flýtt og opnað fyrir aðkomu frumkvöðla og nýsköpunarumhverfisins að lausnaleit á grundvelli nýrrar nýsköpunarstefnu. Tillögur um þetta eiga að liggja fyrir í maí. Í kynningu Reykjavíkurborgar kemur einnig fram að borgin mun halda áfram að veita skapandi greinum betri skilyrði til vaxtar til lengri tíma.