Fréttasafn



18. maí 2018 Almennar fréttir

Reyndu á eigin skinni hversu óskilvirkt kerfið er

Tafir í skipulagi og hjá byggingafulltrúum sveitarfélaga og kröfur af ýmsu tagi bæði tefja framkvæmdir og leiða beint og og óbeint til viðbótarkostnaðar sem er þvert á það markmið að byggja hagkvæmt húsnæði. Það er þjóðhagslega mikilvægt að bæta þarna úr því kostnaður samfélagsins alls er ansi hár og hleypur hugsanlega á milljörðum á ári hverju ef allt er talið. Þetta kemur fram í grein Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI, í nýjasta tölublaði ViðskiptaMoggans. Sigurður nefnir dæmi um Mathöllina á Hlemmi en Reykjavíkurborg stóð fyrir breytingum á húsnæðinu þannig að veitingamenn gætu komið sér fyrir og boðið gestum upp á veitingar. Tafir á veitingu byggingaleyfis, m.a. vegna skipulagsmála, ásamt öðrum ástæðum, leiddu til þess að þetta verkefni tafðist um nærri ár, upphaflega stóð til að hefja starfsemi haustið 2016 en það tókst ekki fyrr en í ágúst 2017. „Með öðrum orðum, þá reyndu borgaryfirvöld á eigin skinni hversu óskilvirkt kerfið er. Þetta er ekki bundið við Reykjavík heldur er málum þannig háttað á einn eða annan hátt í mörgum sveitarfélögum. Þetta verður úrlausnarefni kjörinna fulltrúa eftir kosningar.“

Hér er hægt að lesa grein Sigurðar í heild sinni.