Fréttasafn



5. des. 2019 Almennar fréttir Efnahagsmál Starfsumhverfi

Rök fyrir frekari lækkun stýrivaxta

Samtök iðnaðarins telja að verðbólga og verðbólguvæntingar við markmið gefi peningastefnunni svigrúm til þess að lækka stýrivexti frekar og milda þannig efnahagssamdráttinn en tilkynnt verður um næstu vaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans 11. desember nk. Ýmsar ástæður eru til að halda áfram því lækkunarferli sem nú er hafið. Verðbólga og verðbólguvæntingar hafa verið að lækka og eru nú við 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Líkur eru taldar á því að verðbólgan haldi áfram að lækka á næstunni og fari undir verðbólgumarkmið bankans í upphafi næsta árs. Niðursveiflan í efnahagslífinu er vaxandi og horfur um hagvöxt fyrir næsta ár hafa verið að versna.  

Peningastefnunefndin ákvað einróma að lækka stýrivexti bankans um 0,25 prósentur í lok október sl. Um var að ræða fimmtu vaxtalækkun bankans á þessu ári en frá því í maí hefur nefndin lækkað vextir bankans um samtals 1,5 prósentur. Fagna Samtök iðnaðarins þessu mjög enda mikið hagsmunamál fyrir fyrirtæki og almenning að stýrivextir bankans séu lækkaðir nægjanlega hratt og mikið við þessar aðstæður.

Lækkun stýrivaxta undanfarið hefur miðlast að hluta út í vexti á markaði og vaxtakjör. Á móti hefur dregið úr framboði lánsfjár. Það hefur m.a. þrengt að vaxtarmöguleikum fyrirtækja og komið fram í samdrætti í fjárfestingum þeirra. Mikilvægt er að tryggja að miðlunarferli vaxta virki sem skyldi og að framboð af lánsfé sé nægjanlegt til að tryggja vöxt efnahagslífsins.

Yfirstandandi niðursveifla í efnahagslífinu hefur verið fremur mild, a.m.k. samanborið við margar fyrri niðursveiflur í íslensku hagkerfi. Samdráttur hefur verið í útflutningi og fjárfestingum atvinnuveganna. Neysla og fjárfestingar heimilanna hafa hins vegar haldið áfram að vaxa þó að hægt hafi á þeim vexti. Viðnámsþróttur efnahagslífsins er talsverður um þessar mundir en skuldastaða fyrirtækja, heimila og hins opinbera er nokkuð lág. Hrein staða þjóðarbúsins við útlönd mælist nú rétt um fjórðungur af landsframleiðslu og hefur ekki áður verið betri. Hjálpar þetta til við að mæta niðursveiflunni um þessar mundir. Viðbrögð hagstjórnar hafa einnig hjálpað til og dregið úr niðursveiflunni. Skiptir þar miklu máli að aðgerðir á sviði peningamála og opinberra fjármála hafa verið í takt. Það er sjaldgæft í sögulegu hagstjórnartilliti.

Þrátt fyrir hagstjórnaraðgerðir hefur slakinn í efnahagslífinu haldið áfram að aukast undanfarið. Atvinnuleysi hefur t.d. farið vaxandi og heildarvinnustundum hefur fækkað. Því til viðbótar hafa hagvaxtarhorfur fyrir næsta ár verið að versna. Eftir engan hagvöxt á þessu ári eru horfur á hægum hagvexti á næsta ári. Í þessu samhengi telja Samtök iðnaðarins að frekari hagstjórnaraðgerða sé þörf til þess að beina hagkerfinu inn á nýtt hagvaxtarskeið. Halda verður áfram því lækkunarferli sem nú er hafið.

 

Verdbolga-og-styrivextir-2019

 

Atvinnuleysi-2018-og-2019

Fréttablaðið, 5. desember 2019.

mbl.is, 5. desember 2019.