Fréttasafn



7. maí 2021 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun Orka og umhverfi Starfsumhverfi

Sækja fleiri græn tækifæri í gagnaversiðnaði

Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, og Tinna Traustadóttir, framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs Landsvirkjunar, skrifa um græn tækifæri í gagnaversiðnaði sem þær segja að sé í stöðugri sókn á heimsvísu enda verði gögn sífellt mikilvægari í viðskiptum og daglegu lífi. 

Þær segja að aukin notkun fyrirtækja og einstaklinga á upplýsingatækni hafi stuðlað að hröðum vexti gagnaversiðnaðar og búist sé við að hann haldi áfram í veldisvexti. Um áratugur sé frá því að fyrstu gagnaverin hösluðu sér völl hér á landi og bættust í hóp stórnotenda raforku. Þau séu nú fjögur talsins og hafi raforkusala til starfsemi þeirra fjórfaldast á síðastliðnum fimm árum. Raforkusala til gagnavera sé þó enn aðeins lítill hluti af heildarraforkusölu til atvinnulífs.

Ætla að laða að fleiri alþjóðlega viðskiptavini

Í greininni segja þær frá því að Samtök iðnaðarins og Samtök gagnavera hafi í samvinnu við Íslandsstofu unnið að markaðs- og ímyndarverkefni með því markmiði að laða fleiri alþjóðlega viðskiptavini í gagnaversiðnaði til Íslands, sem og erlenda fjárfestingu í iðnaðinum. Landsvirkjun, ásamt fleiri hagaðilum, munu taka þátt í þessu verkefni og ætlum við að snúa bökum saman í að sækja tækifærin á þessu sviði.

Ísland ákjósanleg staðsetning fyrir gagnaver

Sigríður og Tinna segja að tilkoma gagnavera á Íslandi hafi haft bætta nýtingu raforkukerfisins í för með sér. Ísland sé ákjósanleg staðsetning fyrir þennan nauðsynlega hlekk í tæknibyltingunni sem nú eigi sér stað. Hér á landi sé aðgengi að 100% endurnýjanlegri orku, traustum nútímainnviðum og köldu loftslagi sem henti þörfum gagnavera einkar vel. „Við höfum því ríkt samkeppnisforskot á aðrar þjóðir á þessu sviði. Nýlega tilkynntu stjórnvöld nýjan fjarskiptasæstreng til Írlands sem áætlað er að taka í notkun árið 2022. Nýr fjarskiptasæstrengur opnar á frekari tækifæri í gagnaversiðnaði, en aðrir þættir þurfa að koma til. Nágrannaríki okkar og helstu samkeppnislönd hafa markað skýra stefnu og sýn og vinna markvisst að því að sækja tækifærin í gagnaversiðnaði. Við þurfum að gera slíkt hið sama enda ríkir hörð samkeppni um uppbyggingu þessa iðnaðar á heimsvísu.“

Þarf skýra sýn, stefnu og eftirfylgni

Þær segja gagnaversiðnað skapa nú þegar mikil verðmæti fyrir þjóðarbúið í formi gjaldeyristekna, kaupa á raforku, starfa, þekkingar og annarra afleiddra jákvæðra áhrifa á hagkerfið. Stjórnvöld þurfi að koma með í þessa vegferð með markvissum hætti, meðal annars með því að ryðja hindrunum úr vegi í skattkerfinu, liðka fyrir millistórum notendum í raforkukerfinu og styðja markaðssóknina með beinum hætti. Þá þurfi skýran ramma um nýfjárfestingar í grænum iðnaði. Gagnaversiðnaður hér á landi sé grænn og loftslagsvænn framtíðariðnaður og tækifærin séu margvísleg fyrir Ísland á þessu sviði. „Við höfum ekki nýtt samkeppnisforskot okkar nægilega vel á undanförnum árum en getum sótt fram með skýrri sýn, stefnu og eftirfylgni.“

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.

Morgunblaðið, 7. maí 2021.

Morgunbladid-07-05-2021-3-

Greinar Samtaka iðnaðarins og Landsvirkjunar:

  1. Græn framtíð orkuvinnslu og iðnaðar, Morgunblaðið 6. maí 2021
  2. Græn tækifæri í gagnaversiðnaði, Morgunblaðið 7. maí 2021
  3. Ótal tækifæri í grænum orkusæknum iðnaði, Morgunblaðið 8. maí 2021