Fréttasafn



  • Lög

13. jan. 2016 Lögfræðileg málefni

Samantekt yfir lagabreytingar á árinu 2015

Samtök iðnaðarins hafa tekið saman yfirlit yfir lagabreytingar á árinu 2015 sem SI hefur látið sig varða, sbr. hér að neðan:

Lengri greiðslufrestur á áfengisgjöldum
Með lögum nr. 125/2015 um ýmsar forsendur til fjárlaga fyrir árið 2016 var greiðslufrestur áfengisgjalds lengdur úr tveimur vikum í einn mánuð, sbr. 17. gr. laganna.

Umsögn SI um málið má sjá hér

Breyting á lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd

Með lögum nr. 109/2015 voru gerðar umfangsmiklar breytingar á lögum um náttúruvernd nr. 60/2013, þar sem framsetning svokallaðrar varúðarreglu var breytt og líta eigi til þeirrar reglu þegar ákvarðanir eru teknar á grundvelli laganna.

Sameiginlega umsögn SI og SA má sjá hér    

Breytingar á efnalögum nr. 61/2013

Með lögum nr. 63/2015 voru gerðar nokkuð umfangsmiklar breytingar á efnalögum nr. 61/2013 sem höfðu það að markmiði að samræma íslenskt regluverk við EES-gerðir, færa eftirlit með raf- og rafeindabúnaði frá Umhverfisstofnun til Mannvirkjastofnunar svo og breyta orðalagi og hugtakanotkun í lögunum til að gera framkvæmd laganna skilvirkari.

Umsögn SI má sjá hér

Breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 og setning nýrra laga um stöðugleikaskatt

Sem hluti af áformum stjórnvalda að afnema fjármagnshöftin voru gerðar breytingar á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með lögum nr. 59/2015, sem höfðu það að markmiði að einfalda þær reglur sem gilda um framkvæmd nauðsasamningsumleitana fjármálafyrirtækja. Ennfremur voru sett ný lög um stöðugleikaskatt nr. 60/2015 sem felur í sér álagningu skatts á eignir fallinna fjármálafyrirtækja sem ráðstafað verði í þágu efnahagslegs og fjármálalegs stöðugleika.

Umsögn SI má sjá hér

Lög um breytingu á lögum nr. 129/1994, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Með lögum nr. 54/2015 var fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða breytt og þeim veitt heimild til að fjárfesta í verðbréfum sem verslað er með á markaðstorgi fjármálagerninga (MTF), til jafns við verðbréf sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum markaði. Opnast með lögunum aukin tækifæri fyrir lífeyrissjóði til að fjárfesta í smáum og meðalstórum fyrirtækjum.

Umsögn SI má sjá hér

Heildarlög um ívilnanir til nýfjárfestinga, nr. 41/2015

Sett voru á árinu heildstæð lög um ívilnanir vegna nýfjárfestingar á Íslandi. Löggjöfin myndar ákveðin ramma utan um það hvaða ívilnanir stjórnvöldum og eftir atvikum sveitarfélögum er heimilt að veita í því skyni að fjölga nýfjárfestingarverkefnum utan höfuðborgarsvæðisins.

Umsögn SI má sjá hér

Breyting á raforkulögum nr. 65/2003

Með lögum nr. 26/2015, til breytinga á raforkulögum nr. 65/2003, var bætt inn ákvæðum um kerfisáætlun flutningsfyrirtækis.

Sameiginlega umsögn SI og SA má sjá hér

Breyting á lögum um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku, nr. 98/2004

Með lögum nr. 20/2015, til breytinga á lögum nr. 98/2004, var lagður skattur á dreifingu raforku til að standa undir jöfnun kostnaðar við raforkudreifingu milli þéttbýlis og dreifbýlis.

Umsögn SI má sjá hér

Breyting á vegalögum, nr. 80/2007

Með lögum nr. 14/2015 var vegalögum breytt á þá vegu að ráðherra sé heimilt að setja í reglugerð fyrirmæli um m.a. álagningu veggjalda og notkunargjalds, sem og ákvæði um viðurlög séu ákvæði reglugerðarinnar brotin.  Samgöngustofu var veitt heimild til að leggja á stjórnvaldssektir séu slík gjöld ekki innheimt.

Sameiginlega umsögn SI, SA, SVÞ og SAF má sjá hér

Breyting á umferðarlögum, nr. 50/1987

Með lögum nr. 13/2015 var umferðarlögum breytt til samræmis við EES-gerðir, þar á meðal var nokkrum hugtaksskilgreiningum í lögunum breytt og krafa gerð til atvinnubílstjóra um endurmenntun.

Sameiginlega umsögn SI, SA, SVÞ og SAF má sjá hér

Breyting á lögum nr. 72/1994 um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun heimilistækja

Með lögum nr. 7/2015 voru gerðar ýmsar breytingar á lögum nr. 72/1994 um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun heimilistækja. Þær breytingar fólust m.a. í því að gildissvið laganna var víkkað (nær nú til m.a. vara sem notaðar eru í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð), markaðseftirlit er fært frá Neytendastofu til Mannvirkjastofnunar og eftirlitsheimildir Mannvirkjastofnunar auknar.

Sameiginlega umsögn SI og SA má sjá hér

Lög nr. 6/2015 um stofnun hlutafélags um þátttöku ríkisins í kolvetnisstarfsemi

Lögin veittu framkvæmdarvaldinu heimild til að stofna hlutafélag sem heldur utan um hlut íslenska ríkisins í kolvetnisstarfsemi.

Sameiginlega umsögn SI og SA má sjá hér

Auk framangreinds gerðu Samtök iðnaðarins athugasemdir við ýmis lagafrumvörp sem ekki urðu að lögum sem og þingsályktunartillögur, sjá má heildaryfirlit yfir umsagnir Samtaka iðnaðarins til Alþingis hér

Enn fremur bendum við á umsagnir Samtaka iðnaðarins til ráðuneyta sem finna má hér