Fréttasafn



11. sep. 2025 Almennar fréttir Efnahagsmál Fréttatilkynning

Samdráttur í byggingariðnaði er hafinn eftir 4 ára vaxtarskeið

Nýbirtar hagtölur frá Hagstofu Íslands og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) sýna að samdráttur er hafinn í byggingariðnaði. Eftir fjögurra ára vaxtarskeið frá árinu 2021 hefur velta í greininni nú dregist saman, störfum fækkað, innflutningur byggingarefna minnkað og fjöldi íbúða í byggingu dregist saman svo eitthvað sé nefnt. Þetta kemur fram í nýrri greiningu SI.

Byggingariðnaðurinn er ein af undirstöðum íslensks efnahagslífs. Hann hefur mikið vægi í verðmætasköpun og á vinnumarkaði, bæði beint og óbeint. Fyrirtæki í greininni starfa um allt land þar sem þau skapa störf og sinna mikilvægu hlutverki við uppbyggingu íbúða, atvinnuhúsnæðis og opinberra innviða, sem allt eru forsendur fyrir samkeppnishæfni atvinnulífsins, framleiðni og lífsgæðum landsmanna.

Niðursveiflan í byggingariðnaðinum hefur bein áhrif á hagvöxt, sem mældist aðeins 0,3% á fyrri helmingi ársins eftir samdrátt í fyrra. Efnahagsáhætta fylgir miklum sveiflum í greininni. Slíkar sveiflur skapa efnahagslegan vítahring þar sem samdráttur í dag býr til skort á íbúðum og lakari innviði á morgun, sem aftur leiðir af sér minni framleiðni, lakari samkeppnishæfni, verðbólgu og hærri vexti.

Byggingaridnadur

 

Samdráttur mælist nú í veltu eftir fjögurra ára vöxt

Umfang greinarinnar er mikið. Velta í byggingariðnaði og mannvirkjagerð nam 660 milljörðum króna í fyrra, sem er rúmlega 9% af heildarveltu í hagkerfinu. Þetta endurspeglar mikið vægi greinarinnar í verðmætasköpun hagkerfisins.

Nú er að eiga sér stað skýr viðsnúningur í greininni. Á fyrri hluta þessa árs nam veltan í greininni tæplega 310 milljörðum króna, sem er 2% samdráttur að raunvirði frá sama tíma í fyrra. Þetta er í fyrsta sinn síðan 2021 sem samdráttur mælist í veltu greinarinnar, en á sama tíma í fyrra jókst veltan um 8%.

Samdrátturinn er mestur í þeim hluta greinarinnar sem fæst við byggingu húsnæðis, bæði íbúða og atvinnuhúsnæðis. Þar nam veltan rúmlega 170 milljörðum króna á fyrri hluta þessa árs, sem er rúmlega 5% samdráttur að raunvirði frá sama tíma í fyrra. Til samanburðar jókst þessi hluti veltu greinarinnar um tæplega 8% á sama tímabili árið áður. 

Hér er hægt að nálgast greininguna í heild sinni.


Morgunblaðið, 11. september 2025.

mbl.is, 11. september 2025.

RÚV, 11. september 2025.

RÚV, 11. september 2025.

Vísir, 11. september 2025.

Viðskiptablaðið, 11. september 2025.