Fréttasafn19. jún. 2019 Almennar fréttir Efnahagsmál Starfsumhverfi

Samdrátturinn verði dýpri og lengri en spár segja til um

Líkur eru á því að samdrátturinn í efnahagslífinu verði dýpri og meira langvarandi en nýlegar efnahagsspár hljóða upp á. Seðlabankinn og Hagstofa Íslands reikna með því að samdrátturinn verði um 0,2-0,4% í ár en að hagvöxtur verði kominn í 2,4-2,6% strax á næsta ári. Samtök iðnaðarins telja hættu á því að efnahagssamdrátturinn verði meiri í ár og hagvöxturinn minni á næsta ári en gert er ráð fyrir í þessum spám. Þetta kemur meðal annars fram í nýrri greiningu SI um hagstjórn í niðursveiflu. 

Í greiningunni segir jafnframt að viðnámsþróttur efnahagslífisins til að mæta niðursveiflu sé talsverður. Bent er á öflugan gjaldeyrisforða Seðlabankans, afgang af viðskiptum við útlönd og jákvæða erlenda stöðu þjóðarbúsins. Þá hafi eiginfjárstaða heimilanna styrkst mikið í nýliðinni uppsveiflu og skuldastaða þeirra hafi að sama skapi batnað. Einnig sé fjárhagsstaða ríkissjóðs nokkuð sterk í alþjóðlegum samanburði sem gefi svigrúm til að milda efnahagsleg áhrif þess samdráttar sem vofir yfir með hagstjórnaraðgerðum á sviði opinberra fjármála í samspili við stjórn peningamála. Íslenska hagkerfið standi engu að síður frammi fyrir viðamiklum áskorunum á sviði efnahagsmála og verkefnið nú sé að nýta hagstjórnartækin til að tryggja mjúka lendingu hagkerfisins og undirbyggja hagvöxt til lengri tíma.

Hagvoxtur-og-spa

Mikilvægt að vaxtalækkunarferli haldi áfram

Þá kemur fram í greiningunni að til að hjálpa fyrirtækjum og heimilum að takast á við samdrátt í efnahagslífinu telji Samtök iðnaðarins mikilvægt að peningastefnunefndin lækki stýrivexti Seðlabankans frekar. Með lægri vöxtum megi m.a. efla fjárfestingu og nýsköpun, auka kaupmátt heimilanna og draga úr atvinnuleysi. Þar segir að næsta vaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans verði kynnt 26. júní nk. og full ástæða sé til þess að halda vaxtalækkunarferlinu áfram þá.

Styrivextir-SI

 

Hér er hægt að nálgast greininguna í heild sinni.

Fréttablaðið/Markaðurinn, 19. júní 2019.

Vísir.is, 19. júní 2019.