Fréttasafn



4. sep. 2023 Almennar fréttir Mannvirki Samtök rafverktaka

Samkomulag HMS vegna hleðslustöðva í sölubanni

Í framhaldi af sölubanni á hleðslustöðvum frá Easee í Svíþjóð tók Húsnæðis- og mannvirkjastofnun upp viðræður við dreifingaraðila á Íslandi, Reykjafell, um viðbrögð. Þetta kemur fram á vef HMS. Þar segir að þær viðræður hafi leitt af sér að Reykjafell hafi lagt fram tillögu að viðbrögðum sem HMS telur ásættanlega og birtir stofnunin á vef sínum eftirfarandi innihald samkomulagsins sem nær til hleðslustöðva af þeim gerðum sem um ræðir - af hálfu Reykjafells verða: Ekki frekari pantanir frá framleiðanda. Engin markaðssetning, þ.e. auglýsingar, kynningar o.þ.h. Ekki fleiri tilboð. Sala einungis í þau verkefni sem eru komin í gang, eða þau verkefni þar sem gerð hafa verið tilboð í og rafverktaki getur ekki losað sig frá. Viðgerðir eða kröfur.

Þá segir að HMS hafi einnig verið í sambandi við framleiðandann, Easee, varðandi þetta samkomulag og hann hafi staðfest að hann muni ekki afhenda stöðvar af þeim gerðum sem um ræðir til Reykjafells, né annarra aðila á Íslandi á meðan samkomulagið sé í gildi.

Mikilvægt að rafverktakar grípi til viðeigandi ráðstafana

Samtök rafverktaka og Samtök iðnaðarins vöktu athygli félagsmanna sinn á sölubanni hleðslustöðvanna með bréfi fyrir skömmu þar sem kemur meðal annars fram að ástæðan fyrir sölubanninu, sem upphaflega hafi verið sett af sænsku stofnuninni Elsakerhetsverket, sé sú að hleðslustöðvarnar uppfylltu ekki skilyrði staðla. Nánari upplýsingar um forsendur sölubannsins má finna hér. Í bréfinu kemur fram að ef sölubannið verður staðfest fyrir sænskum dómstólum gætu umræddar vörur talist gallaðar og því mikilvægt að rafverktakar grípi til viðeigandi ráðstafana, með því að upplýsa viðskiptavini um framangreint og/eða bjóða fram aðrar vörur.