Fréttasafn



31. mar. 2020 Almennar fréttir Efnahagsmál Iðnaður og hugverk Mannvirki Nýsköpun Starfsumhverfi

Samtök iðnaðarins fagna fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar

Samtök iðnaðarins fagna fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar en Alþingi samþykkti í gær tillögu til þingsályktunar um sérstakt tímabundið fjárfestingarátak með áherslu á framkvæmdir á yfirstandandi ári til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru COVID-19. Um er að ræða tæplega 18 ma.kr. fjárheimild sem veitt er til átaksins og skiptist hún á ýmsa verkefnaflokka. Þar með taldar fjárheimildir til nýfjárfestinga og viðhalds í samgöngum og fasteignum hins opinbera ásamt fjárheimildum til rannsókna, nýsköpunar og skapandi greina. Verkefnin eru stór og smá um land allt og þannig til þess fallin að verja störf á landinu öllu.

Mikilvægt fyrsta skref

Að mati Samtaka iðnaðarins er um að ræða mikilvægt fyrsta skrefi stjórnvalda í því að mæta þeirri vá sem COVID-19 er fyrir efnahagslíf landsmanna. Fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar skapar öfluga viðspyrnu fyrir íslenskt efnahags- og atvinnulíf til skemmri og lengri tíma. Samtökin fagna einnig yfirlýsingum forystumanna ríkisstjórnarinnar um að meira verði gert og taka samtökin heilshugar undir að betra sé að gera meira en of lítið við þessar aðstæður. Fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar er hluti af stærri aðgerðaráætlun sem að koma ríkisstjórn, Seðlabanki Íslands, sveitarfélög, lánveitendur og aðilar vinnumarkaðarins. Fagna Samtök iðnaðarins samstöðu þessara aðila um efnahagsaðgerðir til að lágmarka þann skaða heimsfaraldurs kórónuveirunnar hér á landi.

Fjarfestingaraform

Breytingar í anda umsagnar SI

Í umsögn SI um málið segir að um nokkurt skeið hafi verið ljóst að hið opinbera þurfi að auka fjárfestingar sínar með hliðsjón af stöðu efnahagsmála, í þeim tilgangi að örva eftirspurn. Þá hefur ítrekað verið bent á að ástand innviða er víða bágborið og er þörf á umtalsverðum fjárfestingum í innviðum landsins. Sú þörf var áætluð 372 milljarðar króna í skýrslu um ástand og framtíðarhorfur innviða sem kom út árið 2017 á vegum SI og Félags ráðgjafarverkfræðinga. Í ljósi þessa fóru SI fram á eftirfarandi í umsögninni:

  • Ráðast í 30-35 ma.kr. viðbótarframkvæmdir í samgöngum og byggingum
  • Nýta samvinnuleiðina
  • Hlutdeildarlán og aukin stofnframlög til að auka íbúðauppbyggingu
  • Endurgreiðslur vegna kvikmyndaframleiðslu verði auknar
  • Hækkun framlaga í Tækniþróunarsjóð
  • Styðja enn frekar við nýsköpun með auknum endurgreiðslum vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar
  • Vitundarvakning um íslenska framleiðslu og þjónustu með hvatningu til landsmanna um að skipta við innlend fyrirtæki

Samtök iðnaðarins telja það ánægjulegt að í meðförum þingsins hafi verið horft til þessara ábendinga en framlög til fjárfestingarátaksins er aukið um tæpa 3 ma.kr. sem fara m.a. í auknar innviðaframkvæmdir í samgöngum og byggingum ásamt auknu framlagi til rannsókna, nýsköpunar og skapandi greina.

  • Hér er hægt að nálgast endanlega tillögu.