Fréttasafn



2. okt. 2024 Almennar fréttir Efnahagsmál Iðnaður og hugverk Mannvirki Starfsumhverfi

Samtök iðnaðarins fagna lækkun vaxta

Samtök iðnaðarins lýsa ánægju sinni með ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands um að lækka vexti um 0,25 prósentustig. Þetta eru kærkomin tíðindi þar sem vaxtalækkun léttir byrðar af fyrirtækjum og heimilum sem glíma við háan fjármagnskostnað á krefjandi tímum þegar vöxtur efnahagslífsins er hægari.

Meginvextir bankans, sem nú standa í 9%, eru enn háir og aðhaldsstig peningastefnunnar er mikið. Mun það áfram hafa umtalsverð áhrif á vöxt efnahagslífsins og sérstaklega fyrir skuldsett fyrirtæki og heimili þrátt fyrir lækkunina nú. Markmiðið er að ná niður verðbólgu en það þarf að gera með sem minnstum tilkostnaði fyrir efnahagslífið. Því er mikilvægt að Seðlabankinn haldi áfram að lækka vexti á næstunni samhliða frekari hjöðnun verðbólgunnar.

Lækkun vaxta bankans markar upphaf vaxtalækkunarferils sem mun eflaust standa yfir næstu mánuði. Seðlabankinn nálgast vaxtalækkunina af varkárni. Lækkun vaxta hefur jákvæð áhrif á íslenskt atvinnulíf og iðnað. Samtök iðnaðarins munu fylgjast með hvernig þessi ákvörðun ber ávöxt bæði í iðnaði og samfélaginu almennt.

Lægri vextir og hjöðnun verðbólgu hvetja til meiri fjárfestingar og styrkja efnahagslífið. Verðbólgan, sem nú mælist 5,4%, hefur lækkað umtalsvert undanfarið, sem eru afar jákvæð tíðindi. Undirliggjandi verðbólga hefur einnig lækkað. Lækkun á verðbólguálagi á skuldabréfamarkaði sýnir aukna trú á verðbólgumarkmið bankans og gefur til kynna að væntingar séu um meiri stöðugleika á næstunni en áður. 

Þessi þróun og ákvörðun bankans um að lækka vexti nú styrkir trú Samtaka iðnaðarins á að Seðlabankinn muni halda áfram að lækka vexti á næstunni.