Fréttasafn



19. nóv. 2025 Almennar fréttir Mannvirki Samtök rafverktaka

Samtök rafverktaka vara við réttindalausum í rafmagnsvinnu

Á samfélagsmiðlum og netþjónustum bjóða einstaklingar og fyrirtæki nú í auknum mæli þjónustu iðnaðarmanna án þess að hafa til þess lögbundin réttindi eða löggildingu. Samtök rafverktaka, SART, vara við þessari þróun. Þetta segir Pétur H. Halldórsson, formaður Samtaka rafverktaka, í grein á Vísi með yfirskriftinni Réttindalaus rafmagnsvinna ógnar öryggi og dregur úr trausti. Hann segir að rafmagnsvinna án fagþekkingar feli í sér mikla öryggisáhættu auk þess sem að hún skerði neytendavernd og grafi undan löglega reknum fyrirtækjum. Neytendur séu því hvattir til að ganga úr skugga um að aðeins löggildir rafverktakar sinni slíkri vinnu. Samtök rafverktaka hvetji því alla sem hyggjast ráða rafverktaka til starfa að ganga úr skugga um að verkið sé í höndum ábyrgra og löggiltra aðila. Það sé hagur allra – neytenda, iðnaðarmanna og samfélagsins í heild.

Ólöggilt rafmagnsvinna er ólögleg og stórhættuleg

Pétur segir að í mörgum iðngreinum, sérstaklega þar sem vinna snerti öryggi og heilsu fólks, séu gerðar skýrar kröfur um ákveðin starfsréttindi og löggildingu. Þetta eigi m.a. við um rafverktaka, blikksmiði, pípulagningamenn, húsasmiði o.fl. Þessar kröfur séu byggðar á lögum og reglugerðum og ætlaðar að tryggja að vinna sé unnin faglega, samkvæmt viðurkenndum stöðlum og af ábyrgð. Hann segir að réttindalausir aðilar lúti hvorki eftirliti Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) né beri sömu faglegu eða lagalegu ábyrgð og löggildir iðnaðarmenn. Ef tjón eða gallar komi upp í kjölfar slíkra verka getur reynst erfitt fyrir neytendur að fá bætur eða úrlausn sinna mála. Pétur segir að löggilding rafverktaka sé forsenda þess að unnt sé að sinna rafmagnsvinnu á öruggan og löglegan hátt á Íslandi. Löggilding sé veitt af HMS og feli í sér að viðkomandi fyrirtæki uppfylli skilyrði um faglega hæfni, ábyrgð og öryggi, þar á meðal að hafa löggiltan rafvirkjameistara sem ábyrgðarmann. Einungis slíkir aðilar megi annast uppsetningu og viðhald rafbúnaðar sem tengdur sé við rafveitu. Ólöggilt rafmagnsvinna sé því ólögleg og geti auk þess verið stórhættuleg. Þá segir Pétur að ef rafmagnsvinna sé unnin af ólöggiltum aðila og reynist gölluð eða valdi tjóni sé réttarstaða neytenda veik. Verkkaupar eigi erfitt með að leita réttar síns og upp hafi komið tilvik þar sem neytendur sitji uppi með kostnað af viðgerðum eða lagfæringum vegna óvandaðrar eða hættulegrar vinnu. Hann segir að vinna réttindalausra geti haft áhrif á útgáfu vottorða, fasteignaviðskipti og tryggingabætur, ef framkvæmdir standist ekki lög og reglur.

Oft um að ræða svarta vinnu þeirra sem sniðganga reglur

Í grein sinni segir Pétur að þegar þjónusta sé veitt af réttindalausum aðilum sé oft um að ræða óskráðan rekstur og svokallaða svarta vinnu. Í slíkum tilvikum séu ekki greiddir skattar og opinber gjöld, né tryggingar sem eigi að vernda verkkaupa ef eitthvað fari úrskeiðis. Þetta hafi áhrif á samkeppni og efnahagslíf. Hann segir að fyrirtæki sem starfi samkvæmt lögum verði undir í samkeppni við aðila sem sniðgangi reglur. Slík skekkja rýri traust, dragi úr gæðum þjónustu og bitni að lokum á neytendum og samfélaginu í heild.

Neytendur velji faglærða og löggilta iðnaðarmenn 

Jafnframt kemur fram í greininni að Samtök rafverktaka minni á að faglærðir og löggiltir iðnaðarmenn séu burðarás í öruggu og heilbrigðu atvinnulífi. Með því að velja rétta aðila til verka og hafna þjónustu sem ekki uppfylli lagaskilyrði stuðli verkkaupar að auknum gæðum, bættu öryggi og heilbrigðari samkeppni. Pétur segir að neytendur eigi rétt á að óska eftir upplýsingum um fagmenntun þeirra sem auglýsa þjónustu sína og hægt sé að nálgast slíkar upplýsingar með ýmsum hætti. Hann segir að til að auðvelda neytendum aðgengi að upplýsingum um fyrirtæki þar sem iðnaðarmeistarar starfi reki Meistaradeild Samtaka iðnaðarins t.d. vefinn meistarinn.is. Þar sé að finna skrá yfir fyrirtæki sem séu innan raða fjölmargra meistarafélaga í byggingar- og mannvirkjagerð, svo sem rafiðnaði, húsasmíði, málaraiðn og fleira. Á vefnum geti neytendur leitað að meisturum eftir landshlutum og greinum.

Hér er hægt að lesa grein Péturs í heild sinni. 

Vísir, 17. nóvember 2025.