Samvinna flýtir fyrir innviðauppbyggingu
Bæði Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, og Árni Sigurjónsson, formaður SI, ræddu mikilvægi samvinnu hins opinbera og einkageirans í innviðafjárfestingum, á Útboðsþingi SI segir í frétt Þórodds Bjarnasonar, blaðamanns, í Morgunblaðinu. Vitnað er til orða Sigurðar Ingi sem sagði að í nokkrum afmörkuðum stærri framkvæmdum sé uppbygging innviða fjármögnuð með samvinnuleið, PPP. Það sé fyrst og fremst gert til að flýta fyrir og stuðla að þjóðhagslega arðbærri fjárfestingu en ekki síður sé það liður í því að laga tekjustofna ríkisins vegna samgangna að orkuskiptum. Sigurður sagði Vegagerðina vinna að því að útfæra nokkrar stórar framkvæmdir með fjársterkum aðilum sem hafi áhuga á að fjárfesta í innviðum landsins. Þessi leið væri vel þekkt frá Hvalfjarðargangamódelinu. „Samvinnuleið í vegaframkvæmdum er sameiginlegt verkefni okkar allra þar sem hið opinbera og fjárfestar koma sameignlega að borðinu og finna leiðir þar sem kostnaði er haldið í lágmarki og fullur aðgangur er að þekkingu.“
Um samstarf einkageirans og hins opinbera sagði Árni á Útboðsþingi SI að sem fyrr hvettu SI stjórnvöld til dáða hvað varðar aukna þátttöku einkafjárfesta, svo sem lífeyrissjóða og sérstakra innviðasjóða, í fjármögnun innviðaframkvæmda til að flýta þeim enn frekar, fjöldi álitlegra aðkallandi verkefna væru fullhönnuð og biðu þess eins að verða sett í gang. „Áherslur nýrrar ríkisstjórnar í þessum málum eru lofandi og það er mikið fagnaðarefni að heildstætt innviðaráðuneyti hafi nú tekið til starfa.“ Hann bætti við að sú breyting muni vafalítið stuðla að auknum málshraða, færri flöskuhálsum og samræmdri stefnu í þessum málaflokkum.
Morgunblaðið, 22. janúar 2022.