Fréttasafn28. ágú. 2019 Almennar fréttir Efnahagsmál Starfsumhverfi

Seðlabankinn stígur skref í rétt átt

Samtök iðnaðarins fagna lækkun stýrivaxta Seðlabankans sem tilkynnt var um í morgun en SI höfðu fyrir vaxtaákvörðunina hvatt til þess að bankinn stígi annað skref í lækkun stýrivaxta nú. Lækkunin sem var 0,25 prósentur var sú þriðja á árinu en bankinn hefur síðan í maí á þessu ári lækkað stýrivexti sína um eina prósentu. Verðbólga og verðbólguvæntingar hafa haldist við markmið um nokkurn tíma og gefur það Seðlabankanum svigrúm til að lækka vexti til þess að hjálpa fyrirtækjum og heimilum að takast á við niðursveifluna.

Telja Samtök iðnaðarins mikilvægt að bankinn lækki stýrivexti enn frekar á næstu mánuðum til að mæta niðursveiflunni í hagkerfinu. Í því ljósi er það ekki síst fagnaðarefni að nýskipaður seðlabankastjóri hafi gefið það til kynna á fyrstu dögum í sínu starfi að von væri á frekari lækkun á vöxtum bankans.

Styrivextir-28-08-2019

Skýr merki um samdrátt

Skýr merki eru um samdrátt í hagkerfinu um þessar mundir sem koma m.a. fram í auknu atvinnuleysi og samdrætti í fjölda starfa og þannig m.a. í kaupmætti ráðstöfunartekna heimilanna. Ferðamönnum hefur fækkað og samdráttur kominn í ýmsum þáttum innlendrar eftirspurnar, einkum því sem sérstaklega tengist þessum þætti útflutnings. Samdrátturinn er þungbær ýmsum innlendum fyrirtækjum.

Hagvaxtarhorfur hafa versnað hratt undanfarið en nú er spáð samdrætti í hagkerfinu í ár og sífellt hægari hagvexti á næsta ári. Kemur þetta fram í hagspá Seðlabankans sem birt var samhliða vaxtaákvörðuninni í dag. Spáir bankinn nú 0,2% samdrætti í hagkerfinu árið 2019 og 1,9% hægvexti árið 2020. Til samanburðar má geta þess að spá bankans sem birt var fyrir ári hljóðaði upp á 2,7% hagvöxt í ár og 3,0% á næsta ári.   

Hagvaxtarspar

Verðbólga og verðbólguvæntingar við markmið

Verðbólgan jókst tímabundið undir lok síðastliðins árs í kjölfar lækkunar krónunnar. Náði hún hámarki í 3,7% í desember síðastliðnum en hefur hjaðnað í 3,1% nú. Líkur eru á því að verðbólgan hjaðni enn frekar á næstunni en samkvæmt spá Seðlabankans verður verðbólgan komin í 2,5% markmið bankans á öðrum ársfjórðungi á næsta ári.

Verðbólguvæntingar hafa einnig verið að lækka undanfarið og eru þær nú rétt við 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans. Verðbólga og verðbólguvæntingar við markmið er mikill kostur m.a. vegna þess að það gefur Seðlabankanum svigrúm til að mæta niðursveiflunni í hagkerfinu með lækkun stýrivaxta um þessar mundir.  

Verdbolga