Fréttasafn5. feb. 2020 Almennar fréttir Efnahagsmál Umhverfis og orkumál

SI fagna áformum ráðherra um úttekt

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur kynnt ríkisstjórn Íslands áform um að fá fyrirtækið Fraunhofer/Ecofy til að gera úttekt á samkeppnishæfni stóriðju á Íslandi, með sérstakri áherslu á raforkukostnað en slík óháð úttekt stjórnvalda á samkeppnishæfni stóriðju á Íslandi hefur ekki farið fram áður. Ráðgert er að gengið verði frá samningi við fyrirtækið í þessari viku og að úttektinni ljúki með skýrslu til stjórnvalda fyrir lok maí. Þetta kemur fram á vef stjórnarráðsins.

Samtök iðnaðarins fagna þessu framtaki ráðherrans enda hafa samtökin talað fyrir því að slík úttekt fari fram þar sem horft er til allrar virðiskeðjunnar en ekki einungis Landsvirkjunar. Samtökin hafa talað fyrir því að horft verði til fleiri atriða sem hafa áhrif á samkeppnishæfni en raforkuverðið, meðal annars sveigjanleika á raforkumarkaði, t.d. möguleika á sölu á umfram-raforku. Úttektin mun ná til allra fyrirtækja sem skilgreind eru sem stórnotendur raforku á Íslandi, þ.e. álver, kísilver, járnblendi og gagnaver.

Óháð greining sérfróðs aðila á samkeppnishæfni stóriðju

Á vef ráðuneytisins kemur fram að undanfarið hafi umræða farið vaxandi um alþjóðlega samkeppnishæfni stóriðju á Íslandi og þá sérstaklega með vísan til raforkukostnaðar, bæði hvað varði framleiðslu og flutning raforku enda sé raforkukostnaður stór hluti af rekstrarkostnaði stórnotenda raforku. Hafi í þeirri umræðu ýmsar tölur og upplýsingar verið settar fram sem ber nokkuð á milli varðandi hver sé í raun samkeppnisstaða stóriðju á Íslandi, í samanburði við nágrannalönd. Í ljósi mikilvægis stóriðju og raforkusölu í íslensku efnahagslífi sé brýnt að fara vel yfir þessi mál og fá fram óháða greiningu sérfróðs aðila á samkeppnishæfni stóriðju, með sérstakri áherslu á raforkukostnað.

Á vef stjórnarráðsins er hægt að lesa nánar um málið.