SI fagna áformum um innviðafélag til uppbyggingar mannvirkja
Samtök iðnaðarins fagna áformum stjórnvalda um stofnun sérstaks innviðafélags sem hafi það hlutverk að fjármagna og halda utan um uppbyggingu lykilsamgöngumannvirkja, svo sem jarðganga, vegaframkvæmda og annarra stórra samgönguverkefna segir í umsögn SI. Samtökin telja slíkt fyrirkomulag nauðsynlegt til að hraða uppbyggingu samgöngukerfisins og vinna markvisst á uppsafnaðri innviðaskuld.
Í umsögn SI kemur fram að viðhaldsskuld samgöngumannvirkja nemi hundruðum milljarða króna, þar sem ástand vegakerfisins sé lakast allra innviðaflokka. Umferð á þjóðvegum hafi aukist verulega á síðustu árum án þess að uppbygging hafi haldið í við þá þróun. Afleiðingarnar birtist í auknum töfum, lakara umferðaröryggi og minni framleiðni atvinnulífsins. Að mati SI er ljóst að umfangsmiklar fjárfestingar í samgöngumannvirkjum eru óhjákvæmilegar á komandi árum.
Samtökin benda á að hefðbundin fjármögnun í gegnum fjárlög hafi ekki reynst nægjanleg til að tryggja stöðuga og fyrirsjáanlega uppbyggingu stórra samgönguframkvæmda. Með því að koma á fót sjálfstæðu innviðafélagi með langtímafjármögnun, tryggari tekjustofnum og mögulegri notkun notendagjalda skapist forsendur fyrir stöðugri framkvæmd jarðganga og annarra stórra samgönguverkefna utan A-hluta ríkissjóðs.
Fyrirsjáanleiki í uppbyggingu samgöngumannvirkja er að mati SI lykilatriði til að tryggja hagkvæmni og lægri kostnað. Greiningar samtakanna sýna að óstöðugleiki í opinberum framkvæmdaáætlunum leiði til hærri útboðskostnaðar og minni fjárfestinga. Með skýrri verkefnaáætlun og trúverðugri framkvæmd geta verktakar boðið hagkvæmar í stórar samgönguframkvæmdir og fjárfest til lengri tíma í búnaði, mannauði og nýsköpun.
SI leggja jafnframt áherslu á að virkja lífeyrissjóði og aðra langtímafjárfesta í uppbyggingu samgöngumannvirkja og að nýta, þar sem við á, samvinnuverkefni hins opinbera og einkaaðila. Slík verkefni geti flýtt framkvæmdum þjóðhagslega arðbærra samgöngumannvirkja, að því gefnu að ábyrgð, áhættudreifing og umgjörð séu skýr frá upphafi.
Að lokum hvetja Samtök iðnaðarins stjórnvöld til að hraða lagasetningu og tryggja að innviðafélag til uppbyggingar samgöngumannvirkja taki til starfa sem fyrst. Markviss og öflug uppbygging samgöngukerfisins er forsenda aukinnar framleiðni, bættra lífsgæða og aukins þjóðhagslegs ávinnings. Iðnaðurinn er tilbúinn til verka.
Hér er hægt að nálgast umsögn SI í heild sinni.

