Fréttasafn



30. jan. 2025 Almennar fréttir Efnahagsmál Mannvirki

SI fagna betri upplýsingum um íbúðir í byggingu

Samtök iðnaðarins fagna framförum í upplýsingagjöf um íbúðauppbyggingu með tilkomu nýs mælaborðs Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS). Þetta er mikilvægt skref til aukins gagnsæis og betri yfirsýnar yfir stöðu íbúðamarkaðarins. Með því að greina skýrt á milli íbúða sem eru raunverulega í byggingu og þeirra sem aðeins hafa samþykkt byggingaráform fæst nákvæmari mynd af raunverulegum umsvifum íbúðauppbyggingar hverju sinni. Þannig er stigið mikilvægt skref til að draga úr þeirri upplýsingaóreiðu sem ríkt hefur um stöðu og framvindu húsnæðisuppbyggingar.

Með því að draga úr gagnaóvissu eykst aðgengi að réttum upplýsingum

Samtök iðnaðarins telja það einnig ánægjulegt að sjá hvernig stafrænar lausnir, eins og samræmt umsóknarviðmót fyrir byggingarleyfi, ryðja sér til rúms. Slíkar lausnir stuðla að meiri nákvæmni, hraðari ferlum og betri upplýsingagjöf, sem er lykilatriði fyrir sveitarfélög, verktaka og alla sem starfa í byggingariðnaði. Með því að draga úr gagnaóvissu og koma í veg fyrir frávik eins og tvískráningar, eykst aðgengi að réttum upplýsingum, sem er nauðsynlegt fyrir markvissa skipulagningu og áætlanagerð.

Skýr mynd af raunverulegri uppbyggingu íbúða

Samkvæmt nýju mælaborði eru framkvæmdir hafnar á rúmlega 6.600 íbúðum af 7.544 útgefnum byggingaleyfum, en byggingaráform standa fyrir um 939 íbúðir. Þetta gefur skýrari mynd af raunverulegri uppbyggingu íbúða og styrkir grunninn fyrir stefnumótun og ákvarðanatöku á húsnæðismarkaði.

Aukið samstarf HMS og sveitarfélaga er mikilvægt skref

Samtök iðnaðarins leggja áherslu á að mikilvægt sé að halda þessari jákvæðu vegferð áfram og tryggja frekari samræmingu á skilgreiningum, skráningum og upplýsingagjöf milli hagaðila. Hraða þarf innleiðingu stafrænna byggingarleyfa í öllum sveitarfélögum og tryggja að öll gögn séu skráð og staðfest tímanlega. Aukið samstarf á milli HMS og sveitarfélaga, eins og komið er á framfæri í frétt HMS, er mikilvægt skref í átt að samræmdari og áreiðanlegri upplýsingagjöf fyrir alla sem koma að uppbyggingu húsnæðis.