SI fagna endurskoðun á fyrirkomulagi hlutdeildarlána
Samtök iðnaðarins hafa skilað umsögn um áform félags- og húsnæðismálaráðuneytisins um breytingar á lögum um húsnæðismál, þar sem fyrirkomulag hlutdeildarlána er tekið til heildarendurskoðunar.
Samtökin fagna áformunum og hafa ítrekað bent á að þörf væri á endurskoðun kerfisins til að efla trúverðugleika þess. Í umsögninni er lögð sérstök áhersla á:
-
Fyrirsjáanleika í úthlutunum: Mikilvægt er að tryggja stöðugt fjármagn til kerfisins og að úthlutun verði fyrirsjáanleg. Skortur á fyrirsjáanleika hefur dregið úr áhuga byggingaraðila en aðkoma þeirra er forsenda árangurs.
-
Samræmi við upphafleg markmið: Frá gildistöku laganna hafa aðeins verið veitt 1.006 hlutdeildarlán, sem er langt undir áætlunum, þrátt fyrir mikla eftirspurn. SI leggja áherslu á að stjórnvöld sendi skýr skilaboð um fjárveitingar til næstu ára.
-
Stuðning við framboðshlið: Hlutdeildarlán eiga fyrst og fremst að styðja við nýbyggingar. Þannig verði tryggt að þau hvetji til uppbyggingar hagkvæms húsnæðis í stað þess að auka eingöngu eftirspurn.
Samtök iðnaðarins leggja því áherslu á að breytingarnar verði nýttar til að styrkja kerfið sem raunhæfan hvata bæði fyrir kaupendur og byggingaraðila.
Hér er hægt að nálgast umsögnina í heild sinni.