Fréttasafn8. apr. 2021 Almennar fréttir Starfsumhverfi

SI fagna endurskoðun álagningu stöðuleyfisgjalda í Hafnarfirði

Samtök iðnaðarins fagna því að Hafnarfjarðarbær hafi endurskoðað álagningu stöðuleyfisgjalda í kjölfar áskorunar samtakanna frá 15. mars sl. er skipulags- og byggingarráð samþykkti nýverið breytingu á reglum um stöðuleyfi og innheimtu stöðuleyfisgjalda til samræmis við niðurstöðu úrskurða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Gjaldið er nú innheimt óháð fjölda gáma eða stærð þeirra auk þess sem gjöldin lækka um það sem nemur kostnaði við eftirlit með gámunum. Úrskurðanefndin hafði komist að þeirri niðurstöðu að öflugt eftirlit bæjarins með gámum væri umfram skyldu og ekki væri hægt að fella þann kostnað inn í stöðuleyfisgjöld. Þá nær gjaldið aðeins til gáma/lausafjármuna sem standa utan svæða sem þeim er ætlað skv. skipulagi.

Samtök iðnaðarins ítreka áskorun sína til annarra sveitarfélaga að álagning stöðuleyfisgjalda verði endurskoðuð í kjölfar úrskurða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og leiðbeininga Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.