Fréttasafn22. apr. 2020 Almennar fréttir Efnahagsmál Iðnaður og hugverk Mannvirki Nýsköpun Starfsumhverfi

SI fagna öðrum aðgerðarpakka stjórnvalda

Samtök iðnaðarins fagna öðrum aðgerðarpakkastjórnvalda sem kynntur var í gær. Frá því að fyrri aðgerðapakki stjórnvalda var kynntur fyrir um mánuði síðan hafa borist jákvæðar fréttir um að virk COVID-19 smit hér á landi hafi fækkað umtalsvert. Á sama tíma hefur hins vegar komið betur í ljós hversu mikil neikvæð efnahagsáhrif veiran hefur hér á landi. Aðgerðarpakki stjórnvalda tekur mið af þessari þróun. Ljóst er að þörf er á frekari aðgerðum til að ná þríþættu markmiði aðgerðanna, þ.e. að í þeim felist fullnægjandi varnir, vernd og viðspyrna. Eftir því sem dregur úr faraldrinum og sóttvarnaraðgerðum vegna hans munu áherslur í aðgerðum stjórnvalda færast í auknum mæli yfir á þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru til að skapa kröftuga viðspyrnu fyrir efnahagslífið að faraldrinum loknum.

Umfangsmiklar og fjölþættar aðgerðir

Umfang þeirra 20 aðgerða sem eru í þessum tveimur pökkum er um 290 ma.kr. eða um 10% af landsframleiðslu. Fyrri pakkinn var mun umfangsmeiri en hinn síðari eða um 230 ma.kr. samanborið við 60 ma.kr. í seinni pakkanum. Seinni pakkinn er með mikilli áherslu á aukinn stuðning til lítilla fyrirtækja í rekstrarörðugleikum þar sem lagðir eru til lokunarstyrkir, stuðningslán og tekjuskattsjöfnun. Í heild eru þessir pakkar tveir með fjölþættum aðgerðum sem nýtast heimilum og fyrirtækjum vel við að takast á við afleiðingar veirufaraldursins.

Áhersla á nýsköpun skapar forsendur fyrir öflugri viðspyrnu

Samtök iðnaðarins eru sérstaklega ánægð með þá áherslu á sókn í nýsköpun sem birtist í bæði fyrri og ekki síst síðari aðgerðarpakka stjórnvalda. Telja SI að með aðgerðum sínum á þessu sviði skapi stjórnvöld forsendur fyrir öflugri efnahagslegri viðspyrnu á grundvelli hugvits og þekkingar. Miklu skiptir að skapaðir séu sértækari hvatar til rannsókna og þróunar með bæði hækkun endurgreiðsluhlutfalls vegna rannsókna og þróunar og hækkun á þaki endurgreiðslna. Einnig er mjög jákvætt að mati SI að með aðgerðunum sé verið að bæta fjármögnun nýsköpunarfyrirtækja.

Veruleg aukning í innviðaframkvæmdum skapar störf og eflir verðmætasköpun

Í aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar hafa innviðaframkvæmdir verið auknar til muna. Í fyrri aðgerðapakkanum fór ríkisstjórnin af stað með ríflega 10 ma.kr. fjárfestingarátak í samgöngumannvirkjum og nýbyggingum og viðhaldi. Einnig var í þeim pakka útvíkkun á „Allir vinna“ sem reiknað er með að skili 8 ma.kr. auknum umsvifum í verklegum framkvæmdum. Að mati SI settu stjórnvöld gott fordæmi með þessum aðgerðum sem sveitarfélögin hafa síðan fylgt en reikna má með að flýtiframkvæmdir vegna efnahagsáhrifa veirunnar gætu verið um 15 ma.kr. á sviði sveitarfélaga á þessu ári. Ánægjulegt er að í seinni aðgerðarpakkanum skuli verða liðkað fyrir markmiði sveitarfélaga um flýtiframkvæmdir en þar er lagt til að þeim verði veittur tímabundinn réttur til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu á byggingarstað. Mun þetta eflaust hvetja þau til enn frekari innviðaframkvæmda í ár. Til viðbótar við þetta hafa fleiri aðilar fylgt eftir fordæmi því sem stjórnvöld settu í fyrsta aðgerðarpakkanum hvað innviðaframkvæmdir varðar. Í heild má reikna með að umfang innviða geti aukist um allt að 40-50 ma.kr. í ár vegna þessara aðgerða allra.   

mbl.is, 22. apríl 2020.