Fréttasafn



15. sep. 2021 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Samtök upplýsingatæknifyrirtækja Starfsumhverfi

SI gagnrýna Reykjavíkurborg harðlega

Í ViðskiptaMogganum er rætt við Sigríði Mogensen, sviðsstjóra iðnaðar- og hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins, þar sem hún segir að samtökin gagnrýni harðlega að Reykjavíkurborg sé að byggja upp sitt eigið hugbúnaðarhús í framhaldi af frétt Morgunblaðsins þar sem sagt var frá því að borgin hygðist verja rúmlega tíu milljörðum í netþróun á árunum 2021 til 2023 og ráða um 60 sérfræðinga. 

Sigríður segir í ViðskiptaMogganumað það sé jákvætt að borgin sé að bæta skilvirkni í þjónustu við borgarbúa en nálgunin fari þvert á atvinnu- og innkaupastefnu Reykjavíkur, en þar sé meðal annars kveðið á um að borgin vilji vinna að vexti fjölbreytts og framsækins atvinnulífs. „Upplýsingatæknifyrirtæki hér á landi hafa alla burði til að leysa þau verkefni sem borgin hyggst nú vinna innanhúss hjá sér.“ 

Hún segir jafnframt að með þessu sé borgin ekki einungis að stíga harkalega inn á samkeppnismarkað heldur einnig að taka til sín og keppa við atvinnulífið um starfsfólk. „Réttast væri að fara í útboð og kaupa lausnir frá upplýsingatæknifyrirtækjum.“ 

Einnig er rætt við Gunnar Zoëga, framkvæmdastjóra notendalausna Origo og formann Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja, sem segir í ViðskiptaMogganum að það komi sér á óvart að verkefnin séu ekki boðin út. Hann segir að borgin hefði getað farið sömu leið og ríkið gerði með verkefnið Stafrænt Ísland sem sé jafnvel umfangsmeira en það sem Reykjavíkurborg sé nú að fara út í. Þar séu öll verkefni boðin út en verkefnastjórn sjái um utanumhald. 

ViðskiptaMogginn / mbl.is, 15. september 2021.

VidskiptaMogginn-15-09-2021