Fréttasafn



6. jan. 2020 Almennar fréttir Nýsköpun

SI helga árið 2020 nýsköpun í sínum víðasta skilningi

Samtök iðnaðarins vilja leggja sitt af mörkum til að efla hér atvinnulíf og velsæld. Liður í því er að helga árið 2020 nýsköpun í sínum víðasta skilningi. Nýsköpun og þróun á sér stað jafnt í nýjum sem grónum fyrirtækjum og með því að styðja við það eflum við samkeppnishæfni landsins til framtíðar. Þetta segir Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, meðal annars í grein sinni í Morgunblaðinu í dag. Hún segir að nýtt ár mæti okkur með sínum tækifærum og áskorunum. Eftir langt hagvaxtarskeið gefi nú á bátinn, atvinnuleysi hafi aukist og fyrirtæki leiti allra leiða til að hagræða í rekstri. Samkeppnishæfni landsins þurfi að efla og sé nýsköpun þar í burðarhlutverki. Fyrir lítið hagkerfi eins og Ísland sé gríðarlega mikilvægt að byggja enn fleiri stoðir undir íslenskt atvinnulíf. „Við viljum að Ísland sé þekkingarsamfélagið þar sem er ýtt og stutt við nýsköpun og frumkvöðlahugsun. Við viljum styðja við og hlúa að einstaklingum með hugmyndir og gefa þeim tækifæri til vaxtar.“

Nýsköpun leiðir til nýrra starfa og aukinna verðmæta

Í greininni segir Guðrún að tækifæri til nýsköpunar liggi á öllum sviðum atvinnulífsins. Nýsköpun leiði til nýrra starfa og aukinna verðmæta. Ennfremur stuðli nýsköpun að lausnum á samfélagslega mikilvægum áskorunum. „Nú um stundir er um fátt meira rætt en áhrif loftslagsbreytinga og breytinga á vistkerfi okkar. Íslensk fyrirtæki hafa sannarlega margt fram að færa í þeim efnum með þekkingu á grænni orku og öðrum grænum lausnum. Ég er sannfærð um að íslensk fyrirtæki eiga frekari möguleika til að takast á við hlýnun jarðar og stuðla að sjálfbærri þróun. Lausnirnar munu koma frá atvinnulífinu og þar mun nýsköpun og þróun gegna lykilhlutverki.“ 

Í greininni fer Guðrún yfir markmið sem sett voru fram í skýrslu sem gefin var út 2010 um Ísland 2020 og sýni það að á undanförnum áratug hafi náðst markverður og eftirtektarverður árangur. Hún segir að efla þurfi samkeppnishæfni landsins með markvissum hætti eigi Ísland ekki að verða eftirbátur annarra ríkja.

Hér er hægt að lesa grein Guðrúnar í heild sinni.

Morgunbladid-06-01-2020