SI kalla eftir nýju plani og forystu til að ná niður verðbólgunni
„Nú þarf nýtt plan og sterka forystu til að leiða samstillt átak til að ná niður verðbólgu og vöxtum. Ríki og sveitarfélög verða að spila með. Samtök iðnaðarins krefjast þess að hið opinbera, ríki og sveitarfélög, aðilar vinnumarkaðarins og Seðlabankinn fari í markvissar og samstilltar aðgerðir til þess að ná niður verðbólgu með sem minnstum kostnaði fyrir atvinnulífið og samfélagið allt,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.
Aukin og mjög há verðbólga eru mikil vonbrigði. Verðbólgan hefur farið úr því að vera 3,7% í 5,2% síðan í október á síðasta ári. Nú fara saman mikil verðbólga, háir vextir, lítill hagvöxtur og vaxandi atvinnuleysi. Þetta er slæm þróun og við henni þarf að bregðast.
Verðbólgan er af innlendum toga. Líkt og Samtök iðnaðarins hafa ítrekað bent á er rót verðbólgu launaþróun og staða húsnæðismarkaðar. Launahækkanir hafa verið umfram framleiðnivöxt, ójafnvægi hefur verið á húsnæðismarkaði og aðhald í opinberum rekstri ekki nægjanlegt. Við þetta bætist nú hækkun hins opinbera á gjöldum.
„Mikilvægt er að allir aðilar undir forystu ríkisins taki ábyrgð á því verkefni að koma verðbólgu og vöxtum niður. Núverandi verðbólgu- og vaxtastig er mjög dýrkeypt fyrir samfélagið. Ljóst er að verðbólgan og núverandi vaxtastig er þungur baggi að bera fyrir heimili og fyrirtæki. Afleiðingarnar sjást í hagtölum sem sýna hægan hagvöxt og vaxandi atvinnuleysi og gætir áhrifanna í iðnaði þar sem má greina samdrátt,“ segir Sigurður.
mbl.is, 29. janúar 2026.
Viðskiptablaðið, 29. janúar 2026.

