SI leggja fram 41 tillögu að aðgerðum fyrir atvinnustefnu
Samtök iðnaðarins hafa skilað inn umsögn um drög að atvinnustefnu Íslands, vaxtarplan til ársins 2035. Samtökin fagna meginmarkmiði stefnunnar um kröftugan vöxt útflutnings sem byggir á atvinnugreinum með háa framleiðni. Fjárfesting í nýsköpun er forsenda aukinnar verðmætasköpunar, framleiðni og fjölbreytni í útflutningi. SI taka í meginatriðum undir almennar og sértækar stefnuáherslur í atvinnustefnunni ásamt markmiðum og mælikvörðum sem verður horft til við eftirfylgni og mat á árangri stefnunnar.
Fjölmargar tillögur til að auka fjárfestingu í nýsköpun
SI leggja áherslu á að skattahvatar til rannsókna og þróunar verði festir í sessi og að skilgreiningar á nýsköpunarverkefnum verði uppfærðar til að endurspegla þróun í hugverkaiðnaði. Jafnframt er hvatt til einfaldari umsóknarferla hjá Rannís, aukinna hvata fyrir fjárfesta og virkari þátttöku lífeyrissjóða í fjármögnun nýsköpunar. Þá fagna SI áformum um að afnema tíu ára tímamörk á nýtingu rekstrartaps og leggja til afnám skattskyldu vegna söluhagnaðar erlendra fjárfesta.
Menntamál í lykilhlutverki
Samtökin leggja áherslu á að menntun í STEAM-greinum verði stórefld, auka þarf samfellu milli skólastiga og draga úr brotthvarfi. Þá eru ýmsar aðgerðir lagðar fram til að stuðla að öflugra iðnnámi, betra samstarfi atvinnulífs og skóla og markvissri innleiðingu menntatæknilausna. Einnig telja SI nauðsynlegt að einfalda komu erlendra sérfræðinga og tryggja skilvirkt umsóknarferli.
Einfaldara og fyrirsjáanlegra regluverk
SI vara við kostnaði og óvissu sem skapast þegar evrópskt regluverk er gullhúðað við innleiðingu og hvetja stjórnvöld til að nýta undanþáguheimildir í hvívetna og fylgja einföldun regluverks sem á sér stað í Evrópusambandinu um þessar mundir. SI leggja áherslu á að fullnægjandi áhrifamat fari fram áður en nýjar reglur eru settar og benda á að eftirlitskerfið skorti samræmi.
Samtökin styðja fyrirhugaðar breytingar á sameiningu heilbrigðiseftirlitsumdæma til að tryggja samræmi og kalla eftir því að í framkvæmd verði farið fram á tilskyldar fagkröfur við útgáfu leyfisskyldrar starfsemi þannig að fyrirsvarsmaður reksturs hafi til þess menntun og hæfni í samræmi við lagakröfur. Í því samhengi leggja SI til að eftirlit með löggiltum iðngreinum verði fært frá lögreglu til sérhæfðra stofnana. Þá kalla SI eftir því að innan stjórnkerfisins verði aðili til þess bær að hafa eftirlit með opinberum innkaupaaðilum.
Öflug hagsmunagæsla á alþjóðavettvangi nauðsynleg fyrir útflutning
Breytt heimsmynd og auknar viðskiptahindranir í formi tolla kalla á öflugri hagsmunagæslu Íslands á alþjóðavettvangi til að tryggja aðgengi að erlendum mörkuðum. SI telja að skoða ætti að efla sendiráð Íslands í Bandaríkjunum til þess að gæta hagsmuna Íslands á Bandaríkjamarkaði. Eins telja SI mikilvægt að stjórnvöld skoði að skipa sérstaka samninganefnd um viðskiptasamning á milli Íslands og Bandaríkjanna.
Brýnt er að tryggja stöðugt aðgengi að hagkvæmri raforku, hraða leyfisferlum og styðja þróun tækni sem dregur úr losun. SI leggja einnig fram sértækar aðgerðir til að styrkja útflutningsvöxt lífvísinda-, heilbrigðistækni- og kvikmyndaiðnaðar og benda á að þessar greinar þurfi skýra hvata, skilvirkt regluverk og öfluga innviði.
Þörf á betri gögnum og gagnsæi
Að lokum leggja SI áherslu á að opinberar hagtölur séu áreiðanlegri, birtar tímanlega og að framsetning gagna um hugverkaiðnað verði bætt verulega til að styðja við upplýsta stefnumótun stjórnvalda og ákvarðanatöku.
Hér er hægt að nálgast umsögn SI í heild sinni.

