Fréttasafn



12. des. 2023 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Starfsumhverfi

SI og SA fagna metnaðarfullum áformum í húsnæðisstefnu

Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins fagna metnaðarfullum áformum sem koma fram í tillögu að þingsályktun um húsnæðisstefnu og að fram sé komin langtímasýn og aðgerðaáætlun til fimmtán ára um húsnæðismarkaðinn. Langvarandi stefnuleysi í málaflokknum til þessa hefur verið óásættanlegt enda eru húsnæðismál eitt helsta velferðar- og efnahagsmál samtímans. Þetta kemur fram í umsögn SI og SA um tillögu að þingsályktun um húsnæðisstefnu fyrir árin 2024-2038 ásamt fimm ára aðgerðaráætlun fyrir árin 2024-2028, 509. mál, sem send hefur verið nefndarsviði Alþingis. Í umsögninni kemur einnig fram að samtökin fagni forystu ríkisvaldsins og innviðaráðherra í húsnæðismálum en minna um leið á að hvetja þarf sveitarfélög til að haga framboði lóða í samræmi við eftirspurn og að hvetja til hagkvæmrar og skilvirkrar uppbyggingar í gegnum áherslur í skipulagsmálum sem og með skilvirkri stjórnsýslu.

Í umsögninni eru gerðar fjölmargar athugasemdir við tillöguna, meðal þess er að ráðast þurfi í samræmda greiningu á lóðaframboði út frá verðþróun og samræma gjaldskrár sveitarfélaganna til að skapa aukið gagnsæi og huga þurfi að bættu starfsumhverfi fyrirtækja sem stunda húsnæðisuppbyggingu m.a. með því að hækka endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna á verkstað í 100%. Einnig segir í umsögninni að samtökin leggist alfarið gegn þeirri nálgun að beita innheimtu fasteignagjalda sem þvingunarúrræði til að hraða uppbyggingu húsnæðis. Ljóst sé að slík ráðstöfun muni aðeins hækka byggingarkostnað og draga úr hvata til uppbyggingar íbúðarhúsnæðis og þá sérstaklega á þéttingarreitum. Þá kemur fram að samtökin mótmæli harðlega setningu hins svokallaða Carlsbergs-ákvæðis og gera alvarlegar athugasemdir við bæði undirbúning og útfærslu þeirra ákvæða sem fram hafa komið í frumvörpum.

Hér er hægt að nálgast umsögnina í heild sinni.