SI og SVÞ vilja frestun og úrbætur á frumvarpi um kílómetragjald
Samtök iðnaðarins (SI) og Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) hafa skilað sameiginlegri umsögn til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis vegna frumvarps um kílómetragjald á ökutæki, með hliðsjón af nýlegri breytingartillögu meirihluta nefndarinnar. Í umsögninni lýsa samtökin yfir ánægju með ákveðin atriði í breytingartillögunni, t.d. frestun gildistöku frumvarpsins til 1. október 2025 og lengri aðlögunartíma vegna gjaldtöku af eftirvögnum. Einnig fagna samtökin áherslu á þróun hugbúnaðarlausna til sjálfvirks álesturs kílómetrastöðu og kalla eftir þátttöku í vinnu stýrihóps um það verkefni.
Hins vegar telja samtökin nauðsynlegt að gildistöku frumvarpsins verði frestað enn frekar til 1. janúar 2026. Það myndi gefa atvinnulífinu og stjórnvöldum raunhæfan tíma til að innleiða fyrirkomulagið með markvissum hætti.
Hvetja til samræmdra aðgerða og sanngirni í gjaldtöku
Samtökin benda á að ekki hafi verið brugðist við tillögu fjármálaráðuneytisins um afslátt fyrir vagnlestir nýorkuökutækja, sem gæti dregið úr áhuga á orkuskiptum í vöru- og hópferðum.
Einnig ítreka samtökin mikilvægi þess að tekjur af kílómetragjaldi fari í vegamál í samræmi við aukna skattlagningu og að gæta þurfi jafnræðis þegar kemur að ráðstöfun opinberra fjármuna.
Leggja til stuðningsaðgerðir áður en lögin taka gildi
Samtökin leggja til að þegar í stað verði veittur 75% afsláttur af núgildandi kílómetragjaldi fyrir hóp- og vörubifreiðar knúnar rafmagni, vetni, metani eða metanóli þar til nýtt gjaldakerfi tekur gildi. Þetta sé nauðsynlegt til að tryggja áframhaldandi stuðning við orkuskipti á tímabilinu fram að gildistöku.
Hér er hægt að nálgast umsögnina í heild sinni.
Viðskiptablaðið, 25. júní 2025.