SI sakna ákveðnari innkomu ríkisins í húsnæðismálum
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir í samtali við mbl.is að atvinnuleysi aukist hægt og sígandi og nú fari fjölda launþega í iðnaði fækkandi miðað við fyrra ár. Það sé þróun sem hafi ekki sést í nokkur ár. „Það eru ýmsar vísbendingar um að farið sé að hægja svolítið á og með hliðsjón af því finnst okkur aðhaldsstig peningastefnunnar vera of hátt um þessar mundir.“
Í frétt mbl.is kemur fram að Sigurður segi Samtök iðnaðarins hafi saknað þess mjög að sjá ekki ákveðnari innkomu ríkisins og að það taki meiri ábyrgð á húsnæðismálunum og létti þannig undir með Seðlabankanum, ríkið eigi að vera í því hlutverki að vinna með sveitarfélögunum að því að auka framboð og að ríkið og sveitarfélögin geti gert mjög mikið í sameiningu til að auka uppbygginguna og þar með létt undir með Seðlabankanum án þess að valda þenslu. „Eins og staðan er núna er boltinn hjá ríkisstjórninni og við eins og fleiri hlökkum mjög til að sjá fjárlagafrumvarpið, sem verður lagt fram 9. september. Það mun svolítið gefa tóninn varðandi stöðuna. Við tökum undir með ráherrunum að sýna þurfi aðhald í rekstri ríkissjóðs við þessar aðstæður. Ríkisstjórnin fór af stað með mjög áhugaverðar hugmyndir um hagræðingu í ríkisrekstri, kallaði eftir hugmyndum úr samfélaginu og fékk mjög sterk og góð viðbrögð. Við vonum auðvitað að sú góða og framsýna vinna muni skila sér og við munum sjá þess merki núna í fjárlagafrumvarpinu.“
Á vef mbl.is er hægt að lesa viðtalið við Sigurð í heild sinni.
mbl.is, 21. ágúst 2025.