Fréttasafn



29. okt. 2025 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

SI vara við breytingum á búvörulögum og kalla eftir stöðugleika

Samtök iðnaðarins (SI) hafa skilað  umsögn um drög að frumvarpi til laga um breytingu á búvörulögum (mál nr. S‑191/2025). SI styðja yfirlýst markmið stjórnvalda um vöxt og verðmætasköpun í matvælaframleiðslu, en vara við frumvarpinu þar sem það auki óvissu, dragi úr hagræðingu og sé á skjön við stefnumið sem atvinnugreinin hefur unnið eftir. „Samtökin telja framlagt frumvarp hins vegar ganga þvert gegn þeim markmiðum sem að ofan er lýst og eru á móti efnistökum þess,“ segir í umsögninni. Samtökin hvetja ráðherra því til að taka breytingarnar til endurskoðunar. 

Breytingarnar skapa óvissu og ófyrirsjáanleika sem veikir fjárfestingu og framþróun. Frumvarpið boðar grundvallarbreytingar á starfsumhverfi án þess að taka mið af raunverulegum aðstæðum í greininni. Ófyrirsjáanleikinn dregur úr hvötum til fjárfestinga, nýsköpunar og framleiðslugetu, þvert á markmið um aukna verðmætasköpun.

Þá eru tillögurnar ekki að svara eftirspurn enda ekkert samráð viðhaft. Breytingarnar svara ekki eftirspurn bænda eftir ásættanlegum starfsskilyrðum og neytenda eftir gæða framleiðslu á hagstæðu verði. Þá voru frumvarpsdrögin lögð fram án nokkurs samráðs við atvinnugreinina og þá sem best þekkja rekstrarskilyrði og áskoranir landbúnaðarframleiðslu. Þar að auki eru þær á skjön við alþjóðlega þróun í landbúnaðarframleiðslu. Í Evrópu hefur verið aukið svigrúm til samstarfs og áhersla á að ná stærðarhagkvæmni, draga úr sóun og styðja sjálfbærni. Breytingar frumvarpsins ganga í gagnstæða átt og geta grafið undan getu framleiðenda til að tryggja framboð á viðráðanlegu verði.

SI ítreka í umsögninni að breytingar á jafn viðkvæmri en mikilvægu atvinnugrein verði að byggja á raunveruleika greinarinnar og nánu samráði við hagaðila.

Hér er hægt að nálgast umsögn SI.