Fréttasafn



16. okt. 2025 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun Starfsumhverfi

SI vilja að skattahvatar vegna R&Þ verði festir í sessi

Samtök iðnaðarins hafa skilað umsögn um áform um breytingar á lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki þar sem áhersla er lögð á að skattahvatar vegna rannsókna og þróunar (R&Þ) verði festir í sessi til langs tíma. Í umsögninni segir að kerfið hafi reynst öflugt tæki til að styðja við fjárfestingu í nýsköpun og verið lykilþáttur í vexti hugverkaiðnaðarins, sem nú er orðin fjórða útflutningsstoð íslensks efnahagslífs.

Endurgreiðsluþak og hlutföll haldist óbreytt

SI leggja til að endurgreiðsluþak og hlutföll haldist óbreytt og að tryggt verði að stuðningur beinist að verkefnum sem fela í sér nýnæmi, verðmætasköpun og tækifæri til alþjóðlegrar skölunar. Þá er lögð áhersla á einfaldari og fyrirsjáanlegri framkvæmd, aukna samvinnu milli Skattsins og Rannís og að komið verði á fót sjálfstæðri áfrýjunarleið fyrir ákvarðanir Rannís. „Skattahvatar vegna rannsókna og þróunar eru stærsta og mikilvægasta framlag ríkisins til áframhaldandi vaxtar hugverkaiðnaðar og þar með aukinnar framleiðni í hagkerfinu,“ segir m.a. í umsögninni.

Virkt samráð við félagsmenn SI og Rannís

Í tengslum við endurskoðun laganna hafa Samtök iðnaðarins átt reglulegt samtal við félagsmenn í hugverkaiðnaði og haldið fund með Rannís þar sem farið var yfir helstu áskoranir í framkvæmd kerfisins. Markmið fundarins var að tryggja að raddir fyrirtækja næðu eyrum stjórnvalda og að framtíðarbreytingar byggðu á raunverulegri reynslu þeirra sem nýta hvata til rannsókna og þróunar.

Hér er hægt að nálgast umsögnina.