Fréttasafn



2. mar. 2024 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki Starfsumhverfi

SI vilja afnema tímamörk á yfirfæranlegu tapi

Í Viðskiptablaðinu er greint frá umsögn SI þar sem nefnd eru nokkur atriði sem samtökin telja mikilvægt að horft verði til við endurskoðun tekjuskattslaga en fármálaráherra kynnti á dögunum áform um breytingar á tekjuskattslögum til að liðka fyrir erlendri fjárfestingu, sérstaklega í nýsköpun. Í fréttinni kemur fram að samtökin segi að ákvæði í tekjuskattslögum um nýtingu á yfirfæranlegu tapi gagnist ekki sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum sem skyldi þar sem tap megi einungis nýta á 10 árum frá því að það myndaðist. Oft á tíðum séu sprotafyrirtæki í rannsókna- og þróunarfasa í 10 til 20 ár og verði því ekki arðbær fyrr en eftir að heimildin fyrnist. Samtökin leggi til að stjórnvöld afnemi tímamörk um nýtingu á yfirfæranlegu tapi og samræmi þannig framkvæmdina við það sem gengur og gerist í nágrannaríkjum. Þá kemur einnig fram að samtökin segi nauðsynlegt að einfalda framkvæmd endurgreiðslna við nýtingu ákvæða tvísköttunarsamninga og samræmi við framkvæmd nágrannaríkja Íslands.

Viðskiptablaðið, 2. mars 2024.